Fram kemur að á árunum 2012 til 2017 greiddi Samherji um eitt prósent af meðalverði afla í veiðigjöld í Namibíu. Lögum var síðan breytt og var hlutfallið fest sem 10 prósent af aflaverðmæti. Árið 2018 greiddi Samherji 10 prósent af aflaverðmæti í veiðigjöld í Namibíu en 8,4 prósent hér á landi. Fyrir árin 2012 til 2017 var hlutfallið hér á landi 5 til 15 prósent.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag.
„Menn hljóta að fara að spyrja sig af hverju íslensk útgerð er tilbúin að greiða meira fyrir tímabundinn aðgang að auðlindinni í Namibíu heldur en ótímabundinn aðgang hér.“
Hefur blaðið eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, um málið. Hún benti einnig á að inn í tölunum fyrir Namibíu sé ekki að finna þær viðbótarfjárhæðir sem greiddar hafa verið þar í landi fyrir veiðiheimildir. Einnig virðist stórhækkun veiðigjalda í Namibíu ekki hafa snert Samherja og áhugi á veiðum þar sé til staðar.
„Skýrslan dregur líka fram það sem við þurfum að gera. Það þarf breytingar á kerfinu til að öðlast traust. Við erum ekki að tala um að kollvarpa því heldur um eðlilega, sanngjarna og réttláta uppfærslu á kerfinu. Það þarf helst að láta markaðinn ákveða verðið. En við þurfum líka skýrt auðlindaákvæði sem er eitthvert bit í en ekki svona grútmáttlaust eins og stjórnarflokkarnir auk Miðflokksins eru að leggja til.“
Sagði Þorgerður sem sagði skýrsluna einnig sýna að frá 2013 hafi veiðigjöld hér á landi sem hlutfall af aflaverðmæti lækkað verulega.