Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Þorgerður telji að ógagnsæið sé farið að valda spennu á milli þjóðfélagshópa, til dæmis atvinnugreina. Hún tekur undir orð Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að aðalmálið sé að skólastarf geti hafist á nýjan leik á tilsettum tíma.
„Það hlýtur að vera til plan hjá ríkisstjórninni um hvernig á að opna skólana, ekki bara leik- og grunnskóla, heldur einnig framhaldsskóla. Ég hræðist félagslegar afleiðingar þess ef skólarnir verða ekki opnir mjög lengi.“
Er haft eftir Þorgerði.
Kári Stefánsson var í viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni í gær og sagði meðal annars að hann myndi helst vilja loka landinu alveg á meðan verið væri að koma böndum á faraldurinn innanlands.
„Ég held að það sé enginn að tala um að landið verði alveg lokað, heldur að það verði bara skimað meira á landamærunum til dæmis.“
Hefur Morgunblaðið eftir Þorgerði sem sagði það ekki aðalmálið hvort landinu verði lokað alveg eða ekki. Það sem skipti máli sé á hvaða forsendum hlutirnir séu gerðir og að gagnsæi ríki um þær ákvarðanir sem eru teknar.
„Þegar ríkisstjórnin er ekki að tala til fólksins sjáum við árekstra á milli hópa sem gerir það að verkum að samstaðan molnar. Þetta má ekki verða til þess að fólk skilji ekki af hverju ákveðnar ákvarðanir eru teknar eða ekki teknar. Það geta verið forsendur á bak við það en ég vil ekki sjá að atvinnuvegir séu að takast á, listamenn, íþróttamenn, ferðaþjónustan. Þessar deilur eru afleiðing þess að fólk skilur ekki hvað ríkisstjórnin er að gera, því ríkisstjórnin er ekki að gera neitt.“
Er haft eftir Þorgerði sem sagði einnig mikilvægt að ríkisstjórnin þurfi ekki aðeins að bregðast við heldur einnig að hafa frumkvæði og sýna á spilin um leið.
„Það verður hér mikið atvinnuleysi og órói í haust. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að svara því? Ekki bara að vera með viðbrögð, heldur að hún sýni spilin. Það er svo nauðsynlegt til að halda áfram samstöðunni.“
Sagði hún.