Morgunblaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í tilkynningu frá Rio Tinto segi að ef Landsvirkjun láti ekki „af skaðlegri háttsemi sinni“ eigi fyrirtækið ekki annarra kosta völ en að íhuga að segja orkusamningum sínum upp og virkja áætlun um lokun álversins. Þar starfa um 500 manns.
Morgunblaðið hefur eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að kæran hafi komið verulega á óvart. Hann sagði erfitt að tjá sig efnislega um hana þar sem Rio Tinto neiti að aflétta trúnaði á samningnum.
„Það er mjög sérstakt að leggja fram þessa kæru og tjá sig efnislega um samninginn með þessum hætti en vera svo ekki tilbúnir að leggja hann á borðið.“
Er haft eftir Herði sem sagðist telja að Landsvirkjun fari í einu og öllu eftir íslenskum og evrópskum samkeppnislögum.