Þetta kemur fram í greiningu Samtaka iðnaðarins. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag.
„Það þarf að bregðast skjótt við vaxandi skattheimtu sveitarfélaga í ljósi þess hve niðursveiflan er djúp. Lækkun fasteignagjalda mun hjálpa til við að draga úr þessari djúpu niðursveiflu, verja fyrirtæki og leiða til þess að atvinnurekendur geti haft fleiri í vinnu. Sveitarfélögin geta ekki verið stikkfrí í hagstjórninni. Allir þurfa að leggja hönd á plóg.“
Hefur Fréttablaðið eftir Ingólfi Bender, aðalhagfræðingi Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt greiningunni munu fyrirtæki greiða rúmlega 1% af landsframleiðslu í fasteignaskatta til sveitarfélaga á þessu ári. Fyrir fimm árum var þessi skattheimta 0,7%. Þessi skattheimta er há í erlendum samanburði en í iðnvæddum ríkjum heims er meðaltalið tæplega 0,4%.
Haft er eftir Ingólfi að það sé verkefni hins opinbera og Seðlabankans að draga úr niðursveiflunni og styrkja viðspyrnu hagkerfisins með því að draga úr álögum, auka útgjöld, lækka stýrivexti og auka útlánagetu bankakerfisins.
„Sveitarfélög eru stór þáttur af umsvifum hins opinbera. Þau þurfa að aðstoða heimili og fyrirtæki við að takast á við efnahagsáfallið. Hærri fasteignaskattar gera hið gagnstæða.“
Er haft eftir honum.