„Af ofangreindu má ljóst vera að frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja, hefur að einu og öllu verið í samræmi við þetta hlutverk nefndarinnar og verklag allt verið eðlilegt. Allar ásakanir um annað byggja á öðru en staðreyndum,“
segir í yfirlýsingu frá meirihluta stjórnskipunar – og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.
Sem kunnugt er sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, af sér formennsku í nefndinni í vikunni þar sem hún taldi stjórnarþingmenn nefndarinnar standa í vegi fyrir frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra, sem gerð var vegna vinskapar hans við forstjóra Samherja.
Taldi hún að persóna sín hefði verið dregið í svaðið og hún beitt þöggunar og kúgunartilburðum vegna starfa sinna í málinu og neitaði hún að vera blóraböggull nefndarmeirihlutans, þar sem það hamlaði framvindu málsins. Tilnefndu Píratar Jón Þór Ólafsson formann nefndarinnar í stað Þórhildar Sunnu.
Sjá einnig: Þórhildur Sunna fékk nóg og sagði af sér formennsku í beinni
Í yfirlýsingunni er ferill málsins í nefndinni rakinn, þar sem ýmis ummæli Þórhildar Sunnu í fjölmiðlum eru dregin fram ásamt fundargerðum.