„Það hefði verið frábært að fá þessi störf hingað. Við stjórnum hins vegar ekki pólitíkinni þar sem sumt er umsemjanlegt og annað ekki.“
Hefur Morgunblaðið eftir Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, um afstöðu VG til málsins. Atvinnuleysi í Reykjanesbæ mældist 28% í lok apríl.
„Auðvitað hefði verið gott að fá þessi verkefni öll af stað með tilheyrandi starfafjölda. Okkur veitir ekkert af því en svona er pólitíkin. Við stjórnum henni ekki og menn hafa sína afstöðu. Þetta hefði vegið mjög þungt fyrir okkur, en sumt er óviðunandi af hálfu einhverra flokka og við verðum að sýna því skilning.“
Hefur Morgunblaðið eftir Kjartani. Fram kemur að Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar, segi að afstaða VG kalli á sérstakan rökstuðning.
„Það er ábyrgðarhluti ef menn ætla að hverfa frá þjóðaröryggisstefnunni með þessum hætti og hunsa þannig mögulegar þarfir í varnarsamstarfi okkar. Ég er undrandi á því hvernig hægt er að leggjast gegn uppbyggingu á borð við þessa. Þetta er uppbygging borgaralegra innviða, sem varnarsamstarf byggist í síauknum mæli á.“
Hefur blaðið eftir henni. Aðspurð sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við Morgunblaðið að henni finnist óviðeigandi að blanda aukinni hernaðaruppbyggingu inn í efnahagsaðgerðir stjórnvalda og að afstaða VG til mála sem þessara sé alveg skýr.