Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Icelandair leggi einnig til að flugfreyjur fái eingreiðslu upp á 202.000 krónur en hún er háð því að af hlutafjárútboði verði.
Icelandair er sagt leggja til að föst laun flugmanna, sem og 2% launahækkun fyrir 60 ára og eldri, breytist ekki og það sama eigi við um desember- og orlofsuppbót. Félagið leggur einnig til að flugmenn muni framvegis fá eitt öruggt helgarfrí mánaðarlega í stað eins og hálfs eins og verið hefur. Þeir muni einnig fá tvö helgarfrí á þriggja mánaða fresti. Svipaðar tillögur eru settar fram að kjarasamningi fyrir flugfreyjur.
Lagt er til að breytingar verði gerðar á kaupaukakerfi flugmanna en það byggist meðal annars á eldsneytisnýtingu. Lagt er til að því ákvæði verði skipt út fyrir ákvæði um arðsemi Icelandair Group.
Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir að markmiðið með þessum breytingum sé að fjölga meðalflugtímum hvers flugmanns um sem nemur einu Evrópuflugi á mánuði.
FÍA hefur sagt að flugmenn séu reiðubúnir til að taka 25% hagræðingu á sig og segist Morgunblaðið hafa heimildir fyrir að tillögur Icelandair rúmist innan þess svigrúms.