fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Snilldarlegar- og sögulegar spennusögur loks á íslensku

Egill Helgason
Föstudaginn 3. apríl 2020 11:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég endurbirti þessa grein frá árinu 2010 vegna þess að nú er komin út fyrsta bókin á íslensku í bókaflokki Philips Kerr um Bernie Gunther. Hún er gefin út af Sögum i þýðingu Helga Ingólfssonar og Kristínar V. Gísladóttur. Hin sögulega vídd í þessum spennusögum er afar skemmtileg en þær minna líka dálítið á bækur Philips Marlows – fyrir þá sem horfðu á sjónvarpsþættina Berlin Babylon er þetta tilvalið lesefni.

— — —-

Ég datt í að lesa sögur Philips Kerr um þýska lögregumanninn og spæjarann Bernhard Gunther. Þetta eru með skemmtilegustu bókum sinnar tegundar. Þær eru sex talsins. Kerr skrifaði þrjár fyrstu bækurnar á árunum 1989 til 1991, þær hafa verið gefnar út í einu bindi undir heitinu Berlin Noir. Síðari þrjár bækurnar eru útgefnar á árunum 2006 til 2009. Þær mættu að ósekju verða fleiri.

Snemma í bókaflokknum er talað um kínversku bölbænina sem hjóðar svo: Megir þú lifa áhugaverða tíma.

Það á svo sannarlega við aðalpersónu bókanna, Bernie Gunther. Eftir því sem líður á bókaflokkinn fáum við að vita meira um lífshlaup hans og fortíð.

Það kemur í ljós að  Gunther hefur verið hermaður í fyrri heimstyrjöldinni, misst fyrstu konu sína í spænsku veikinni í lok stríðsins. Hann gerist lögreglumaður á Alex, höfuðstöðvum Berlínarlögreglunnar við Alexanderplatz. Hækkar í tign og er orðinn háttsettur rannsóknarlögreglumaður. Hann er sósíaldemókrati, andsnúinn bæði kommúnistum og nasistum, óvinum lýðræðisins. Eftir þinghúsbrunann 1933 hættir hann í lögreglunni og verður öryggisvörður á hinu fína Adlonhóteli. Síðan gerist hann einkaspæjari – það er hann í fyrstu bókinni – í öllum bókunum er farið fram og til baka í sögunni, og þannig kynnumst við bæði söguhetjunni betur og tengingum hans við sögulega atburði fyrir og eftir stríð.

Loks er hann fenginn til að koma aftur til starfa í lögreglunni, það af völdum frægs og dularfulls lögregluforingja sem nefndist Arthur Nebe. Eftir sameiningu ýmissa lögreglustofnana innan Þriðja ríkisins er Gunther svo orðinn meðlimur í SS og þarf að lifa með því eftir stríðið.

Hann er sendur á austurvígstöðvarnar með sérsveit í kjölfar innrásarherja Þjóðverja. Fæst við að berjast gegn aftökusveitum sovésku leynilögreglunnar sem myrtu mikin fjölda Pólverja og íbúa Eystrasaltsríkja, en kemst fljótt að því að tilgangur sveitanna er að drepa gyðinga. Fær sig fluttan yfir til Wehrmacht, þýska herinn, og starfar fyrir leyniþjónustu hans Abwehr.

Í lok stríðsins lendir hann í sovéskum stríðsfangabúðum, lærir rússnesku, kemst til Berlínar 1947 og gerist aftur einkaspæjari. Flækist til Vínar, en flytur svo til München þar sem seinni kona hans deyr af óþekktum orsökum. Lendir svo í flóknu máli sem tengist þýskum stríðsglæpamönnum og þarf að flýja til Argentínu eins og hann sé stríðsglæpamaður sjálfur. Fimmta bókin um hann gerist í Argentínu mestanpart – og reyndar að hluta til tæpum tveimur áratugum áður undir fall Weimarlýðveldisins – en sögusvið sjöttu bókarinnar er Kúba 1953 og Berín um það leyti að verið er að undirbúa Ólympíuleikana 1936.

Þannig fléttar Philip Kerr ýmsa sögulega þræði meðfram því að hann er að skrifa spennubækur; við sögu koma þekktar persónur eins og áðurnefndur Nebe, Hermann Göring, Reinhard Heydrich, Adolf Eichmann, Josef Mengele, Juan og Evita Perón, Batista, einræðisherra á Kúbu, og bandaríski glæpaforinginn Meyer Lansky.

Gunther er harður á yfirborðinu, en samúðarfullur og heiðarlegur undir niðri, óheppinn í kvennamálum, óþægilega hreinskilinn, ekki ósvipaður týpum eins og Philip Marlowe, nema hvað hann er þýskur, ljóshærður og hávaxinn,  en það er hin sögulega vídd og sögusviðið sem gefur bókunum gildi. Allt það höndlar höfundurinn, Philip Kerr, afskaplega vel. Þetta er hin dægilegasta afþreying, en þó langt í frá innantóm.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt