Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, tók ansi illa í hugmyndir Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í fyrradag, um að fjölga þyrfti störfum hjá hinu opinbera til að bregðast við efnahagsáhrifum Covid-19. Sagði Bjarni þetta verstu hugmynd sem hann hafði heyrt, þar sem nú væru störf í einkageiranum að hverfa og vöntun á verðmætasköpun framundan.
Staksteinar Morgunblaðsins taka undir orð Bjarna í dag og bæta við að heldur þurfi að fækka störfum hins opinbera, en ekki fjölga, sem virðist kveikjan að skrifum Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar:
„Nú stígur fólk fram og leggur til að opinberum störfum verði fjölgað, í ljósi stórkostlegs atvinnuleysis. Störfum við að annast fólk verði fjölgað. Störfum inn í skólakerfinu okkar, umönnunarkerfinu okkar, helbrigðiskerfinu okkar. Kerfunum sem við eigum, sem við höfum nært með skattgreiðslum okkar og vinnu okkar og tíma. Og þá dirfast valdamenn, auðmenn að láta eins og það sé versta og heimskulegasta hugmynd í heimi. Menn sem hafa aldrei dýft hendi í kalt vatn. Og bókstaflega fara bara að bulla. Vilja frekar hafa fólk atvinnulaust en að búa til störf inn í kerfum sem sárlega þurfa á meira vinnuafli að halda,“
segir Sólveig.
Sólveig segir svör Bjarna undarleg, þegar fjöldi fólks horfi fram á atvinnuleysi:
„Hverskonar svar er þetta eiginlega hjá fjármálaráðherra Íslands? Já, vandamálið er að störfin í einkageiranum eru horfin. Fólk er án atvinnu. Og til eru stofnanir þar sem að sárvantar vinnuafl. Hjúkrunarheimilin hafa flutt inn fólk á undanförnum árum til að hægt sé að reka þau. Leikskólarnir hafa þurft að bjóða námsfólki að vera í 30%, 40% vinnu svo að hægt sé að láta hlutina ganga upp. Endalaus mannekla og fólk endalaust að byrja og hætta. Er það „versta hugmynd“ sem fullorðinn maður með stórkostleg völd hefur heyrt að vandi þeirra án atvinnu og vandi kerfanna verði leystur? Fyrirgefiði en ég verð að viðurkenna að mér fallast hendur þegar ég les þetta. Guð minn góður, hvað er hægt að ganga langt í veruleikafirringunni?“
Sólveig gerir ráð fyrir að Davíð Oddsson riti Staksteina dagsins og segir hann veruleikafirrtan:
„Í Staksteinum í dag, sennilega rituðum af læriföður fjármálaráðherra, manninum sem hafði mest völd allra í íslensku samfélagi lengi vel, er lagt til að fólki sem starfar hjá hinu opinbera verði sagt upp. Til að „veita atvinnulífinu og þar með verðmætasköpuninni eðlilegt svigrúm.“ Það er hægt að ganga svona langt í veruleikafirringunni. Það er hægt að leggja það til að í stórkostlegu fjöldaatvinnuleysi sé það hlutverk hins opinbera að reka fólk! Sem getur þá farið á atvinnuleysisbætur. Sem ríkið greiðir. Þetta mun veita „svigrúm“. Ég get ekki annað en ákallað guð aftur og farið með bæn; að forsætisráðherra raunverulega vilji og geti haft einhverja stjórn á brjálseminni í fjármálaráðuneytinu svo að menn á valdi óra og ofsatrúar fái hér ekki að leiða yfir okkur enn meiri ógæfu.“