fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Eyjan

Hart deilt um skaðabótakröfur útgerðarfyrirtækja – UPPFÆRT: FYRIRTÆKI HÆTTA VIÐ

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 15. apríl 2020 17:00

Þetta er fiskurinn sem kom þessu öllu af stað, makríll.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útlytjenda, leiðir líkur að því að Hæstiréttur hafi staðfest eignarhald útgerðanna á veiðiheimildum, þvert gegn lögum um stjórn fiskveiða. Nokkur stór útgerðarfyrirtæki hafa lagt fram skaðabótakröfu á hendur ríkinu upp á ríflega 10 milljarða króna í kjölfar dóms Hæstarréttar þess efnis að úthlutun makrílkvóta árið 2009 hafi ekki verið lögmæt. Úthlutunin byggði ekki á veiðireynslu að öllu leyti heldur var hluta heimildanna úthlutað til smábáta án veiðireynslu.

Arnar fer yfir málið í grein á Vísir.is í dag. Hann telur dóminn stangast á við fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða en hún er svohljóðandi:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Arnar skrifar:

„Sú staðreynd að handhafar veiðiheimildanna geti nú raunverulega talist bera skaða af því með hvaða hætti þeim er úthlutað hlýtur að vekja upp fjölda spurninga. Hugsanlega er stærsta spurningin sú hvort ekki eigi einfaldlega að fella úr gildi ákvæði sem ekki er raunverulegt eða virkt og nálgast verkefnið með öðrum hætti. Þá er átt við það verkefni að tryggja þjóðinni sem mestan afrakstur af auðlindinni.“

Arnar bendir í að stærstu útgerðir landsins þurfi hvorki á afslætti né endurgreiðslu að halda enda hafi þær verndaðan aðgang að auðlindinni. Hann segir:

„Lögverndað aðgengi þeirra ætti að tryggja þeim forskot sem engu öðru er líkt. En það er engu líkara en stórútgerðin kæri sig ekki um að vera með þjóðinni í liði eða skila henni til baka sanngjörnum skerf af þeim auðæfum sem útgerðarmönnum hafa verið afhent.

Ráðamenn þjóðarinnar verða að huga að því hvernig tryggja megi með öruggum hætti enn meiri afkomu Íslendinga af auðlindinni. Það getur ekki verið með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.“

Katrín og Bjarni bregðast við af hörku

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gagnrýnt skaðabótakröfu útgerðarmanna harðlega. Í umræðum á Alþingi í gær hvatti Katrín umrædd fyrirtæki til að draga skaðabótakröfuna til baka og sagði þetta ekki vera góða leið til að vekja samhug á erfiðum tímum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að reikningurinn yrði aldrei sendur til þjóðarinnar. Þetta er haft eftir honum úr Alþingisumræðum:

„Fiskveiðistjórnununarkerfi okkar er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiðigjald, þetta eru allt mál mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi með lögum og reglum.

Og möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir á milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig. Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag, þá er það einfalt mál í mínum huga: Reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur.“

Bjarni bætir um betur á Facebook-síðu sinni og skrifar: „Það kemur ekki til greina að ríkissjóður verði fyrir skaða vegna þessara málaferla. Ég tel því einsýnt að við munum þegar hefja undirbúning nauðsynlegrar lagasetningar sem taka af öll tvímæli um að makrilútgerðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er.“

Farið er yfir málið í frétt í Morgunblaðinu í dag. Þar bendir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, á að lög gildi líka á erfiðum tímum. Hann bendir jafnframt á að ríkinu hafi verið boðin sátt í málinu á síðasta ári. Um ummæli fjármálaráðherra segir Sigurgeir:

„Ég hef oft heyrt í fréttum að ríkið hafi tapað máli og verið dæmt til greiðslu skaðabóta í kjölfarið en aldrei áður heyrt því hótað að skattleggja þá sem urðu fyrir skaðanum sérstaklega fyrir skaðabótunum. Ég er ekki löglærður en ég að held ég geti fullyrt að þessa lagatúlkun sé ekki að finna í lögbókum réttarríkja.“

 

Hannes lofar dugnað útgerðarmanna

Fjörugar umræður voru um málið á samfélagsmiðlum í gær. Athygli vakti að Bjarni Benediktsson var mjög lofaður fyrir mjög ákveðin og afdráttarlaus viðbrögð sín í málinu, líka af mörgum sem almennt eiga ekki samleið með honum í stjórnmálum.

Stjórnmálaprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem lengi var álitinn einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, tekur upp hanskann fyrir útgerðina og birtir málverk af öfundinni, eftir Gericault, á Facebook-síðu sinni.

Hannes skrifar:

„Þetta málverk eftir Gericault er af öfundinni. Væri hægt að virkja hana, þá þyrfti ekki nein raforkuver á Íslandi, sagði Ragnar í Smára mér. Öfund býr að baki síbyljunnar gegn útgerðinni.“

Hann skrifar enn fremur:

„Óskaplega leiðist mér þessi síbylja gegn útgerðinni. Þjóðin ætti frekar að þakka fyrir þessa dugnaðarforka. Þeir gera, sem geta.“

Afar margir andmæla Hannesi og meðal þeirra sem leggja orð í belg er Glúmur Baldvinsson, sem skrifar:

„Það er hagur okkar allra að sjávarútvegurinn sé vel rekinn – ekki með mútum og þjófnaði á auðlind okkar allra. Meira að segja Hannesar.“

 

Uppfært: Fimm af sjö draga kröfurnar til baka

Fimm af útgerðarfélgögunum sjö sem gerðu kröfu á ríkið  hafa fallið frá kröfum sínum. Þetta eru: Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes.

Yfirlýsing fyrirtækjanna um þetta er eftirfarandi:

„Sjávarútvegsfyrirtæki falla frá málsókn um skaðabætur

Svo sem fram hefur komið munu áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. Fyrir endann á því verður ekki enn séð, því miður. Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar. Af þessum sökum hafa undirrituð fimm sjávarútvegsfyrirtæki tekið þá ákvörðun að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl.

Þann 6. desember 2018 voru kveðnir upp tveir dómar Hæstaréttar, þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem tvær útgerðir (Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn ehf.) töldu sig hafa orðið fyrir með því að fiskiskip þeirra hefðu á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011 til 2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum. Með dómum þessum var því staðfest að lög hafi verið brotin af hálfu þáverandi sjávarútvegsráðherra við úthlutun aflaheimilda og að leiddar hefðu verið að því líkur að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af þeirri háttsemi. Umboðsmaður Alþingis komst að sambærilegri niðurstöðu vegna þessarar meðferðar ráðsherra.

Í kjölfar þessa dóma höfðuðu sjö útgerðarfélög, um miðbik síðasta árs, mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem þau urðu fyrir vegna rangrar úthlutunar makrílkvóta, á tímabilinu 2011-2018.

 

Árétta ber að enn hefur ekki verið dæmt um hvert hið fjárhagslega tjón hlutaðeigandi aðila var á því tímabili sem aflaheimildum var úthlutað í andstöðu við sett lög. Það hefur raunar ekki verið grundvallarþáttur málsins. Það sem mest er um vert, er að settum lögum sé fylgt og ábyrgð fylgi því þegar út af bregður. Það á við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld. Þetta er einn grundvallarþáttur réttarríkis.

 

Virðingarfyllst,

Eskja

Gjögur

Ísfélag Vestmannaeyja

Loðnuvinnslan

Skinney-Þinganes“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra