Ég kynntist teiknimyndapersónunum Astérix og Obélix snemma – strax á sjöunda áratugnum þegar bækurnar voru að koma út í Frakklandi. Vinur fjölskyldunnar, Kolbeinn Sæmundsson sem þá var við nám í fornmálum í París, kom reglulega með bækurnar og færði mér og systur minni. Nokkurn veginn jafnóðum og þær komu út. Það var þá að ég fór að stauta mig fram úr frönsku – íslenskar þýðingar komu ekki fyrr en allnokkru síðar. Þá fengu aðalpersónurnar íslensk nöfn.
Það voru hinn úrræðagóði og þrautseigi Ástríkur og hinn sísvangi, ofursterki og dálítið grunnhyggni Steinríkur.
Ég man að manni þótti þessar bækur brjálæðislega nýstárlegar – þá meina ég upphaflegu frönsku útgáfurnar. Teikningarnar, húmorinn, hugmyndaflugið. Prentunin var líka betri en maður átti að venjast í þá daga. Bækurnar voru bundnar inn í hörð spjöld, mjög fallegar að allri gerð. Þarna var sægur af persónum, stórum og smáum, allar með sín ýktu einkenni, allt svo ferskt og ógleymanlegt.
Maður skildi náttúrlega ekki alla fyndnina – og gerir kannski ekki enn – þótt bækurnar ættu að gerast í fornöld er að finna í þeim alls kyns skírskotanir til samtímans. Tímaramminn var svo skemmtilega á reiki, þarna var að finna Júlíus Sesar, forn-Egypta, víkinga og svo borgarlíf í París – sem í bókunum heitir Lutetia.
Á endanum varð þetta risastór iðnaður, skammt frá París er risastór skemmtigarður helgaður Astérix og það hafa verið gerðar fjölmargar kvikmyndir eftir sögunum. Bækurnar héldu lengi áfram að koma út, en það verður að segjast eins og er að það eru þær fyrstu sem ná að verða sígildar – því það eru þær – þá voru höfundarnir Réne Goscinny og Albert Uderzo. Goscinny samdi textann, Uderzo teiknaði. Fyrsta sagan kom út í teiknimyndablaði 1959, og þeir héldu áfram þar til Goscinny lést 1977. Þá tók Uderzo yfir. Tilkynnt var um andlát hans í dag, hann var 92 ára að aldri.
Bækurnar hafa verið þýddar á ótal tungumál. Þær fóru að koma út á íslensku 1974 og hér má lesa útgáfusöguna á Íslandi og titla bókanna. Einhvers staðar í hillu á ég svo nokkrar Astérix-bækur á grísku og eina á latínu.
Þetta er svo dálítið skemmtileg mynd sem ég fann á Wikipedia. Það er tilgáta um hvaðan fyrirmyndirnar að persónum í bókunum kunna að hafa komið. Málverkið er eftir Évariste Vital Luminais sem þekktur var fyrir söguleg málverk sín af fornþjóðum Norður-Evrópu.