Eins og ég sá skrifað – enginn fótbolti, ekkert Evróvisjón, hvað á maður að gera?
Það er ansi auðvelt að láta sér leiðast á svona tímum þegar fólk þarf að halda sig heima vegna sótthættu – og við vitum heldur ekki hversu lengi ástandið varir.
Líkamsræktarstöðvar loka, það kemur til átaka um plássin í sundlaugum (sem verður ábyggilega lokað brátt), fundum og mannamótum, tónleikum og listviðburðum hefur verið aflýst.
Og hvað eiga þeir að gera sem eru sýknt og heilagt að tala um Manchester United og Liverpool og stöðuna í enska boltanum – og líka búið að blása af Meistaradeidina, Evrópumótið í fótbolta og hugsanlega sjálfa Ólympíuleikana.
Þegar maður er bara heima getur maður fljótt dottið í vonda rútínu. Sofið á óreglulegum tímum, verið sífellt að uppfæra Facebook, fylgjast með rövlinu þar, beturvitana og samsæriskenningasmiðina sem geta rænt mann sálarró. Eða horfa á Netflix daginn út og inn, eins og mest af efninu þar er nú klént, hámhorf er ekki gott í langan tíma.
Ekki er betra ef maður er búinn að sanka að sér matarbirgðum og er að stelast í þær – svona eins og í útilegu þegar fólk er strax byrjað á nestinu í Ártúnsbrekkunni.
Allt getur þetta verið fjarska óhollt. Margir hika ábyggilega líka við að fara út og hreyfa sig – margmennið er reyndar ekki vandamál hérna eins og í Wuhan eða New York, en samt getur verið spurning hvað maður á að hætta sér mikið út undir bert loft. Ekki hjálpar heldur hvað er leiðinlegt færi þessa dagana.
Það gæti verið hætta á því að þegar þetta er afstaðið – vonandi sem fyrst – göngum við út, grá og guggin,úfin og illa klippt og vondu formi, pírum augun framan i dagsbirtuna, vitum varla hvaða dagur er.
Ef sóttvarnarástandið dregst á langinn þarf talsvert átak til að fari ekki svona fyrir okkur mörgum.
Þess vegna er afar mikilvægt að þeir sem eru ekki beinlínis að stunda vinnu, að heiman eða annars staðar, finni sér eitthvað að gera, eitthvað sem gefur lífinu tilgang, jafnvel eitthvað sem getur nýst þegar þetta er afstaðið og fólk getur verið ánægt með þegar sá dagur rennur upp.
Svona viðfangsefni geta náttúrlega verið af öllu tagi, allt eftir hæfileikum og áhugamálum hvers og eins. En hugsanlega mætti koma hlutunum þannig fyrir að menntastofnanir opni starfsemi sína upp á gátt á netinu eins og framast er kostur – og kannski ýmsir aðrir sem hafa einhverju að miðla. Að fólk geti sótt sér menntun, gagnlega hluti, fróðleik meðan þessi stóra lokun samfélagsins varir. Bætt einhverju við líf sitt, lært eitthvað nýtt, tileinkað sér eitthvað.
Það er ekki bara góð leið til að láta sér ekki leiðast, finna tilgang, heldur gæti slíkt hjálpað okkur til að ná okkur upp úr lægðinni þegar ósköpunum slotar, halda fram veginn. Nú er um að gera að beita ímyndunaraflinu – við sjáum til dæmis að tónlistarmenn eru að nota netið til að flytja okkur lifandi músík, Þjóðleikhúsið flytur ljóð, en þetta eru bara lítil dæmi um hvað hægt er að gera.
Þetta eru ekki sérlega frumlegar hugsanir eða hugmyndir, og mörgum dettur ábyggilega í hug miklu fleira sniðugt, skemmtilegt og mannbætandi en mér. En þetta er eitthvað sem við ættum að pæla í saman sem borgarar þessa lands í óvenjulegu (takið eftir að ég nota ekki orðið fordæmalausu) ástandi.