Einn okkar allra fremsti ljósmyndari, Sigurgeir Sigurjónsson, stendur fyrir stórfenglegri ljósmyndasýningu á Facebook þessa dagana. Og það verður að segja eins og er það er dálítið gott að ylja sér við gamlar myndir og minningar á þessum napurlegu tímum.
Ferill Sigurjóns nær alveg aftur á sjöunda áratuginn, þegar hann var unglingur, og hann hefur tekið alls kyns myndir. Myndir hans af tísku og hljómsveitum frá því á bítla- og hippatímanum fanga tíðarandann einstaklega vel. þessi ljósmynd hérna er uppáhaldshljómsveitamynd mín. Þetta er Trúbrot, nýstofnuð súpergrúppa, að kvöldlagi í Lækjargötunni árið 1969. (Það má reyndar nefna að Sigurgeir tók mynd af sjálfum Jimi Hendrix.) Myndin birtist á forsíðu Vikunnar, held ég megi segja. Þau eru hreint æðislegar poppstjörnur á henni, Rúnar, Shady, Gunni, Jökullinn og Kalli.
Svo er það myndin sem er hér efst sem Sigurgeir setti á Facebook. Hún er úr seríu sem hann kallar Síðustu kaupmennirnir á horninu. Þessi mynd er úr Hallabúð sem var á Hverfisgötu 39. Á myndinni eru Björn Jónsson og Óskar Páll Ágústsson.
Eitt sinn voru svona hornbúðir út um allan bæ. Afgreiðslumennirnir voru oft líkir þessum mönnum – karlar í sloppum. Í þessum búðum sló hjarta hverfanna. Þar hittist fólk, skiptist á sögum og skoðunum, ræddi um börnin sín og nágrannana, daginn og veginn. Fyrir nokkru síðan kom út ágæt bók um hverfisbúðir af þessu tagi, það var saga Óskars Jóhannssonar í Sunnubúðinni – þar sagði hann frá ýmsu sem dreif á daga smákaupmannanna, hvernig þeir gátu jafnvel verið sálusorgarar fyrir fólk, en líka frá mikilli vinnu og erfiðum rekstrarskilyrðum.
Smákaupmönnunum var útrýmt – það var nánast eins og skipulögð aðgerð. Reistar voru stórar verslunaskemmur á jöðrum byggðarinnar og þangað var ekki hægt að komast nema á bifreið. Borgarskipulaginu var beinlínis beint gegn smáversluninni. Þarna var hægt að bjóða lægra verð en hjá kaupmanninum á horninu, stóru verslanakeðjurnar gátu þvingað framleiðendur og birgja til að lækka verð en smákaupmennirnir höfðu engin tök á því.
Og þannig hurfu búðirnar á horninu, það gerðist á frekar stuttu tímabili, eins og hendi væri veifað. Eftir er ein og ein búð – og má dást að þrautseigju eigendanna. En bæjarlífið batnaði ekki við þetta, eða hver þekkir börnin eða gamla fólkið með nafni í Bónus eða Krónunni eins og var í hverfisbúðunum?
En myndirnar hans Sigurgeirs eru menningarverðmæti.