Þetta er dásamleg mynd, það er nánast eins og hún komi úr öðrum heimi. En þegar maður skoðar umhverfið er það kunnuglegt, þarna er Mæðragarðurinn í Lækjargötu, Miðbæjarskólinn og hús sem stendur við Laufásveg.
Myndin birtist á vef Þjóðminjasafnsins og er frá 1955. Höfundur hennar er Björn Björnsson. Mikið af fróðlegu og skemmtilegu efni er að finna á þessari síðu.
Á síðunni er greint frá því að þessi skáli hafi verið settur upp vegna sovéskrar og tékkneskrar vörusýningar sem var haldin í júlí 1955. Frá sýningunni var sagt á forsíðu Þjóðvijans og því slegið upp að þarna yrðu frá saumnálum til stórra vinnuvéla.
Við sjáum að byggingin er í stíl arkitektúrs stalínismans, það blakta rauðir fánar, en á veggi skólans hafa verið hengdar veggmyndir með upplýsingum – eða áróðri…
Kommúnistaríkin lögðu mikla áherslu á stóriðju og framleiðslu véla en voru aftarlega á merinni varðandi neysluvarning, föt og matvæli sem sífelldur skortur var á. En Íslendingar voru í hópi þjóða sem áttu mikil viðskipti við austantjaldsríkin. Ein skýring þess er hversu kommúnistar voru áhrifamiklir hér – miðað við það sem til dæmis gerðist á Norðurlöndunum.
Við seldum þeim síld og ullarvarning en á móti óku Ísleningar – sérstaklega þeir sem töldu sig til vinstri – á Moskvits og Skóda. Sumar fjölskyldur vildu helst ekki sjá annað. Hjá sumum var það pólitísk yfirlýsing, aðrir vildu ekki sjá neitt nema ameríska bíla – en svo komu japönsku bifreiðarnar og flöttu alveg út þennan mikla ágreining.