Heinaste, risatogari í eigu Samherja, var kyrrsettur í morgun. Kjarninn greinir frá og segist hafa heimildir fyrir því að lögreglan hafi kyrrsett skipið á ný í morgun á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi.
Skipið er í eigu Esju Holding, sem Samherji er meirihlutaeigandi í. Það var kyrrsett í nóvember á grundvelli laga um ólöglegar fiskveiðar á hrygningasvæði við strendur Namibíu og var skipstjórinn Arngrímur Brynjólfsson dæmdur til sektar á miðvikudag, en hann hafði setið í farbanni síðan í nóvember.
Kjarninn segir að sektin, sem hljóðaði upp á um átta milljónir króna, hafi verið greidd í reiðufé eftir að dómstólinn ytra fór fram á það. Hafi upphæðin verið sótt í bankann meðan Arngrími var gert að halda kyrru fyrir í réttarsalnum á meðan. Fékk hann í kjölfarið frelsi sitt og vegabréf og var kyrrsetningu Heinaste aflétt.
Kyrrsetningin í morgun mun vera tímabundin meðan yfirvöld vinna að formlegri kröfugerð sinni, en yfirvöld fóru fram á í byrjun þessa árs að togarinn yrði gerður upptækur. Þeim kröfum var vísað frá dómi á miðvikudag.
Samherji sagði í tilkynningu í gær að unnið væri að því að gera togarann út í Namibíu og hann yrði leigður út þar ytra. Þá ætlaði Samherji að tryggja sem flestum úr áhöfninni áframhaldandi vinnu eftir fremsta megni, en kyrrsetningin í morgun mun vafalaust tefja þau áform.
Sjá einnig: Björgólfur um dóminn yfir Arngrími í Namibíu – „Þetta skapar ný tækifæri“