Nokkuð uppnám var á Alþingi í dag þegar greiða átti atkvæði um skýrslubeiðni Viðreisnar með stuðningi Pírata og Samfylkingarinnar, til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, um samanburð greiðslna Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu annarsvegar og Íslandi hins vegar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði skýrslubeiðnina lýðskrum og hitnaði í hamsi í pontu:
„Þessi skýrslubeiðni er auðvitað ekkert annað heldur en ákveðið lýðskrum,“ sagði Bjarni og bætti við:
„Hérna er þyrlað upp pólitísku moldviðri“ / „Hér er verið að rugla saman gerólíkum kerfum og beðið um að þingið samþykki að þessi gerólíku kerfi séu tekin til samanburðar og í samanburðinum þá séu meintar mútugreiðslur hafðar með í reikningnum til að þetta komi sem best út í pólitískri umræðu á Íslandi. Þetta er auðvitað langt í frá að vera boðleg tillaga og það er engan veginn hægt að styðja hana,“
sagði Bjarni, en tillagan var samþykkt með 27 atkvæðum gegn sjö og tíu greiddu ekki atkvæði.
„Þetta er auðvitað eitt tæki minnihlutans til að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og fullkomlega eðlilegt. Þetta er einföld skýrslubeiðni og fullkomlega eðlilegt að almenningur fái að vita,“
sagði Þorsteinn Víglundson, þingmaður Viðreisnar.
Ágúst Ólafur Ólafsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði um dæmigerða hagsmunavörslu að ræða:
„Stjórnarandstaðan er hér sökuð um lýðskrum. Ég ætla hins vegar að ásaka stjórnarliðana um þessa klassísku sérhagsmunagæslu sem við sjáum hérna aftur og aftur í þessum sal þegar kemur að málefnum ákveðinna fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er hluti af miklu stærri mynd./ Ég held að þjóðin sjái alveg hvaða hagsmuni þessi ríkisstjórn er alltaf að gæta, það eru hagsmunir stórútgerðarinnar.“