fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Það er ljótt að ræna Kjötborg

Egill Helgason
Fimmtudaginn 27. febrúar 2020 11:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frekar er ég argur yfir því að einhver náungi, vopnaður hnífi, skuli hafa framið vopnað rán í Kjötborg á Ásvallagötunni. Ég get heldur ekki ímyndað mér að neinum detti í hug að mikið geti verið upp úr því að hafa að ræna Kjötborg. Þetta er engin milljónabúð. Eins og vinkona mín ein segir, vonandi fær brotamaðurinn góða aðstoð.

En Kjötborg er merkileg búð, ein helsta stofnunin í Vesturbænum. Bræðurnir Gunnar og Kristján eru mannvinir, þeir eru til í að leggja mikið á sig fyrir viðskiptavinina, sendast með varninginn heim til þeirra, aldraðir fá þar góða þjónustu og börnin gott viðmót – stundum verður Kjötborg nánast eins og félagsþjónusta.

Í frétt af ráninu segir að Kjötborg hafi ekki orðið fyrir slíku í 40 ára sögu sinni. En ég get bætt um betur.  Á horni Ásvallagötu og Brávallagötu hefur verið verslunarrekstur í hátt í 90 ár að mér telst til. Áður en Kjötborg kom í húsnæðið var þar verslun Péturs Kristjánssonar um langt skeið.

Það var gamaldags búð með körlum í sloppum bak við búðarborð. Pétur var þar sjálfur, bjó á Sólvallagötunni, og Haraldur bróðir hans sem bjó á Ásvallagötu – hinir vænstu menn báðir. Og svo var þar starfsmaður sem hét Þorsteinn, en strákar í hverfinu störfuðu sem sendlar í búðinni, einn þeirra var vinur minn Kristján Valsson sem bjó á efstu hæðinni á Ásvallagötu 19 þar sem búðin er.

Með sendlastarfinu fylgdi forláta svart reiðhjól með grind framan á en að vetrum var farið með vörurnar á skíðasleða. Ég öfundaði Kristján dálítið af þessu starfi og fór stundum með honum í sendiferðir.

Fjölskylda mín flutti í hverfið 1939, afi og amma keyptu það og fjármögnuðu með því að leigja út hvert herbergi, frá kjallara upp í rjáfur. Þau og börnin fimm voru í tveimur herbergjum. Gamla húsið er nú í eigu mömmu og systur minnar. Þá strax hófust viðskiptin við Pétursbúð eins og hún var kölluð (ber ekki að rugla henni saman við Pétursbúð á Ægisgötu, þar eru engin tengsl). Mamma á það reyndar ennþá til að kalla hana Pétursbúð.

Fjölskylda mín hefur semsagt verslað þarna í 80 ár – lengst af voru það viðskipti í reikningi sem svo var greiddur um mánaðarmót. Alltaf góð viðskipti og ánægjuleg. Á kvöldin sátum við krakkarnir hverfinu á tröppunum framan við búðina – þaðan sá maður vítt yfir leiksvæðið sem maður hafði og gott að ákveða hvað maður skyldi gera næst. Kári Stefánsson sem átti heima á horninu á móti sagði mér einhvern tíma að það hefði yfirleitt mátt heyra í götunni þegar ég var úti.

Þá voru búðir út um öll hverfi bæjarins. Í Ljósvallagötu var Brekka, svo var búð á Sólvallagötu 9, og niðri í Verkamannabústöðum var mjólkurbúð, nýlenduvöruverslun, fiskbúð, kjötbúð og sérstök brauðbúð – og bókasafn.

Síðar var borgarskipulaginu beinlínis beint gegn verslunarrekstri af þessu tagi. Allir skyldu vera á bílum. Það var gerð mikil uppfylling úti á Granda, lítil borgarprýði, og þar var hrúgað niður skemmum sem innihalda stórverslanir. Þangað fara fæstir nema á bíl. Gamalt fólk kemst illa þangað, börn hlaupa ekki í búðina eftir einhverju smáræði. Og smákaupmennirnir geta ekki keypt vörur fyrir búðir sínar á sama verði og stórverslanirnar.

Þetta er í raun alveg sjúkleg öfugþróun – en ábyggilega í nafni framfara.

En Kjötborg lifir enn, eins og minnisvarði um gömlu hverfisbúðirnar. En hún gegnir líka mikilvægu hlutverki eins og áður er lýst, maður getur varla hugsað sér gamla Vesturbæinn án Kjötborgar.

Kjötborg hafði ekki orðið fyrir ráni í  40 ár, ég held að verslun Péturs Kristjánssonar hafi heldur ekki verið rænd – þannig að þetta er næstum öld.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra