fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Eru Englendingar færir um að sýna nægan stórhug til að skila höggmyndunum af Akrópólis?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 21:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég skrifaði dálítið um nýlendustefnuna hér um daginn. Einn af glæpum hennar er að hafa sankað að sér og stolið góssi út um víða veröld. Dæmin eru óteljandi. Nokkur af helstu söfnum veraldarinnar byggja á þessu stórfellda ráni forngripa og listaverka. Það fyrsta sem NapóleonBonaparte gerði þegar hann réðst inn í Egyptaland var að láta greipar sópa – þess vegna er egypska deildin í Louvre svona stórkostleg.

Þá má auðvitað nefna að nasistar ætluðu að leika sama leik. Hermann Göring hafði gríðarlegan áhuga á fornminjum, hann hafði snuðrara út um allt og lét færa til Þýskalands muni frá hinni hernumdu Evrópu. Það hefur tekið langan tíma að koma þessum hlutum aftur í hendur réttmætra eigenda, Sovétmenn tóku eitthvað af safninu með sér heim eftir fall Þriðja ríkisins.

Frægasta málið eru svonefnt Elgin-safn sem er að finna í British Museum. Nú hafna Englendingar því enn einu sinni að skila þessum verkum til Grikklands þaðan sem þau eru upprunnin. Málið hefur komið upp í tengslum við Brexit, en þetta er bara enn einn þátturinn í löngu leikriti.  Brexit á ekki að skipta máli í þessu sambandi.

En hrokinn hefur verið algjör. Jú, þetta eru einhverjir dýrmætustu gripir sem er að finna í British Museum, það yrði skaði fyrir safnið að missa þá, en staðreyndin er sú að þeim var á sínum tíma komið frá Aþenu sem þá laut tyrkneskri stjórn. Englendingar hafa haldið því fram að þeir hafi verið fengnir með „löglegum hætti“ – en hafi verið gefið leyfi þá voru það embættismenn Ottómanveldisins, ekki Grikkir sem fengu ekki sjálfstæði fyrr en fáum áratugum síðar.

En auðvitað er heldur ekkert aðalatriði hvernig þetta safn var fengið. Það voru aðrir tímar og vonandi höfum við komist nokkuð langt frá hugarfari nýlendustefnunnar þar sem sumum þjóðum leyfðist að fara ránshendi um aðrar – í skjóli vopna, auðs og meintrar siðmenningur. Það blasir við öllu rétthugsandi fólki að staður höggmyndanna er í Aþenu. Þar voru verkin gerð, þau voru hluti af byggingunum á Akropolishæð, og þaðan voru þau fjarlægð í upphafi 19. aldar. Það er náttúrlega skelfing að kenna þau við þjófinn Elgin lávarð – þetta eru í rauninni Parþenon-höggmyndirnar. Verkin koma úr þeirri frægu byggingu en líka úr Propylaia (Hofhliðinu) og Erekþeion.

Það má kannski færa rök fyrir því að útsendarar nýlendustefnunar hafi bjargað einhverju af góssinu sem þeir söfnuðu saman frá eyðileggingu. Í sumum tilvikum er það ábyggilega satt. En það veitir ekki eignarhald á gripum sem voru fjarlægðir í skjóli hernaðarlegra yfirburða og ríkidæmis.. Nú hafa Englendingar geymt höggmyndirnar af Akrópólis í 200 ár og það er kominn tími til að þeim sé skilað.

Það er heldur ekki hægt að segja að Grikkir séu ekki tilbúnir til að taka við höggmyndunum, því rétt við Akrópólis hefur risið glæsilegt safn þar sem hafa beinlínis verið útbúin rými til að taka á móti þeim. Má segja að vöntunin á þeim sé eiginlega himinhrópandi. En það var líka ætlun Grikkjanna.

Við Íslendingar vorum nýlenda – sumir segja hjálenda – Dana. Mestu verðmæti Íslendinga, gömlu skinnhandritin, voru flutt til Kaupmannahafnar. Ekki er örgrannt um að sum hafi varðveist vegna þess. En Danir höfðu nægan stórhug til að leysa handritamálið farsællega, þeir skiluðu fornhandritunum, nú eru orðin fimmtíu ár síðan. Það var hátíðlegur atburður, ég var í flokki skólabarna sem var farið með niður í bæ, við veifuðum íslenskum og dönskum fánum, þegar fyrstu handritin voru borin frá dönsku herskipi, þá féllu hin frægu orð „Fladöbogen, værsogod.

Englendingar þverskallast við. En væri það þeim ekki til framdráttar ef Johnson forsætisráðherra kæmi til Aþenu með marmarastytturnar og afhenti þær Grikkjum í stað þess að þumbast við í skjóli heimsveldishrokans gamla? Sýna smá stórhug?

Það er stórkostlegt að heimsækja söfn eins og British Museum, Louvre og Hermitage. En þau eru líka óhugnanleg á sinn hátt. Þarna er dæmi um hvernig nýlenduþjóðirnar töldu sig vera í nánast heilögum rétti til að fara um heiminn og hirða hvaðeina sem útsendara þeirra langaði að taka. Fara svo heim og stæra sig af því. Það getur verið stórkostlegt að koma á svona söfn, og að baki sumu býr fróðleiksþrá og þekkingarleit, en þetta eru líka eins og yfirfullar skemmur sem urðu fyrir nýlenduþjóðirnar eins og tákn um yfirburði þeirra og hvað siðmenning þeirra væri fremri öðrum. Þetta er mjög úreltur hugsunarháttur, enda eiga fornminjar almennt heima sem næst þeim stað þar sem þær eru upprunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?