fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Óvægin mynd um glæpi enska heimsveldisins

Egill Helgason
Mánudaginn 17. febrúar 2020 13:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndina The Nightingale er að finna á ýmsum efnisveitum. Hún er áströlsk, leikstjórinn og handritshöfundurinn heitir Jennifer Kent. Þetta er býsna óvægin mynd enda gerist hún í samfélagi þar sem öll siðalögmál hafa verið látin lönd og leið – það er gjörsamlega brútalíserað. Sögusviðið er Tasmanía árið 1825, söguhetjan er ung kona, Clare, sem hefur verið flutt fangaflutningum þarna á heimsenda frá Írlandi. Saga fangaýlendanna sem Englendingar settu upp í Ástraliu og í Tasmaníu er rosaleg, þar má benda á stórbrotna bók eftir Robert Harris sem nefnist The Fatal Shore. Stundum hefur verið sagt að þetta hafi verið eins konar æfing fyrir einangrunarbúðir nasista og gúlag kommúnistanna.

Tasmanía var einstaklega öfgafullt dæmi um nýlendukúgun og -spillingu. Myndin lýsir því hvernig enskir hermenn sem eru komnir svo langt frá heimalandi sínu álíta sig hafa rétt til að nota fangana eins og þeir vilja. Þeir eru þrælavinnuafl, sæta stöðugu ofbeldi, en konurnar má misnota og nauðga. Einhverjum kann að láta sér bregða í brún þegar hann sér tvö nauðgunaratriði framarlega í myndinni.

Í baksviði eru svo einhverjir ömurlegustu atburðir nýlendusögunnar. Á þessum tíma geisaði stríð milli ensku nýlenduherranna og frumbyggja Tasmaníu. Þettta var kallað „Svörtu stríðin“, frumbyggjarnir þekktu landið vel og gátu notað það í skæruhernaði, en á endanum áttu þeir ekkert í byssur Englendinganna og skipulagðar hersveitir þeirra. Það var lýst yfir herlögum sem fólu í sér að hinir innfæddu væru réttdræpir hvar sem þeir sæust, það voru veitt verðlaun fyrir að ná þeim – lifandi eða dauðum. Þeim sem reyndu að fela sig í trjám voru „skotnir niður eins og krákur“. Í einu fjöldamorðinu var mörgum tugum karla beinlínis hent lifandi fyrir björg.

1830 var svo farið í miklar aðgerðir, mikill fjöldi hermanna og innflytjenda myndaði línu þvert yfir eyjuna og hreinsaði burt hina innfæddu, þeir voru myrtir en aðrir hraktir burt og enduðu á litlum bletti á suðausturhluta eyjarinnar – þar sem var ætlunin að þeir fengju að dúsa.

Talið er að frumbyggjarnir hafi verið 3000 til 4000 þegar Englendingar komu fyrst til Tasmaníu, þótt nefndar hafi verið tölur allt upp í 7000.. Eftir þessi fjöldamorð voru ekki eftir nema um það bil eitt hundrað.

Þetta var auðvitað ekki annað en þjóðarmorð og ægilegur harmleikur. Menning og tunga hinna innfæddu glataðist, frumbyggjarnir sem eftir lifðu voru sendir á afskekkta eyju þar sem þeir dóu út vegna þrælkunar, vosbúðar og sjúkdóma, síðasta manneskjan sem sögð var af óblönduðum ættum frumbyggjanna dó 1905. Hún hafði fengið enska nafnið Fanny Cochrane Smith og er til hljóðupptaka með tali hennar og söng – leifar af tungumáli Tasmaníubúa.

En aftur af kvikmyndinni The Nightingale. Hún er að sönnu býsna nöturleg. Getur ekki endað vel í því ástandi sem þá ríkti í þessu landi. Það segir sína sögu að höfundar kvikmyndarinnar láta þarna ná saman tvö fórnarlömb hinnar ensku nýlendustefnu – írsku stúlkuna sem var flutt nauðungarflutningum að heiman út á endimörk heimsins og svo ungan karlmann sem er frumbyggi og hundeltur vegna kynþáttar síns.

Sem er nokkuð þörf áminning um að glæpir ensku heimsvaldastefnunnar hafa aldrei almennilega verið gerðir upp – þetta er langur og ljótur listi og merkilegt að til sé fólk sem telur að nýlendukúgunin-, arðránið og ofbeldið hafi verið blessunarríkt, mæra það jafnvel – partur af því að siðmennta heiminn. Eftirsjá eftir enska heimsveldinu er einhver furðulegasta tímaskekkja sem til er. Á einum stað las ég að The Nightingale ætti að vera skylduáhorf í skólum í Ástralíu.

Í þessu sambandi má svo nefna kvikmynd sem nefnist The Black 47, hún gerist á Írlandi á tíma kartöflubrestsins mikla sem leiddi af sér hugursneyð, hörmungar og landflótta þar sem hlutur Englendinga er eigi fagur. Ég skrifaði um hana grein fyrir einu og hálfu ári.

Myndin hér að neðan sýnir nokkra af hinum síðustu eftirlifandi innbyggjurum Tasmaníu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið