Í síðustu viku kynnti þverpólitískur hópur þingmanna hugmyndir um hjálparpakka upp á 908 milljarða dollara svo ráðuneytið gengur aðeins lengra í hugmyndum sínum.
Samkvæmt tillögunni eiga yfirvöld í ríkjum Bandaríkjanna að fá peninga til ráðstöfunar sem og sveitarstjórnarstigið. Einnig er kveðið á um peninga fyrir fyrirtæki, skóla og háskóla til að hjálpa þeim að standa við skuldbindingar sínar og starfa áfram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steven Mnuchin, fjármálaráðherra. Hann kynnti tillöguna fyrir Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í fulltrúadeildinni í gær. Hann hefur einnig kynnt hana fyrir Donald Trump, forseta, og Mitch McConnel, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni.
Flokkarnir hafa mánuðum saman reynt að ná saman um hjálparpakka og hefur ríkisstjórn Trump einnig komið að málum en lítið hefur miðað.
Fyrr á árinu samþykkti þingið hjálparpakka upp á 2,2 billjónir dollara. Hann átti að styrkja efnahagslífið en langt er síðan að pakkinn rann úr gildi.
Tillaga fjármálaráðuneytisins er eitt af síðustu tækifærum ríkisstjórnar Trump til að koma hjálparpakka í gegnum þingið áður en Joe Biden og stjórn hans taka við völdum 20. janúar næstkomandi.
Það þrýstir enn frekar á alla aðila að leysa málið að í lok desember renna út ákvæði fyrri hjálparpakkans um aðstoð við atvinnulausa. Hugveitan The Century Foundation telur að um 12 milljónir Bandaríkjamanna muni þá missa fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera.