Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að engar bætur hafi enn verið greiddar til þeirra bænda sem þurftu að skera niður fé sitt vegna riðuveikinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 123 milljónum í málaflokk sem nefnist Greiðslur vegna varna gegn dýrasjúkdómum.
Í svari ráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland segir einnig að hugsanlega þurfi að endurskoða þessa fjárhæð þegar fyrir liggur hvernig bótagreiðslur munu skiptast á milli ára.
Fréttablaðið hefur eftir Haraldi Benediktssyni, varaformanni fjárlaganefndar og fyrrverandi formanni Bændasamtaka Íslands, að varasjóður vegna dýrasjúkdóma hafi verið lagður af þegar ný lög um opinber fjármál tóku gildi. Fjárheimildir til bóta handa bændum kunni að fást að hluta með sérstakri heimild í fjárlögum og að hluta í fjáraukalögum. Það fari eftir því hvenær bændur fái bætur greiddar.