fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Pistill: Bóluefnaklúðrið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 31. desember 2020 12:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skoðanapistill blaðamanns

Eftir að bóluefni gegn COVID-19 var þróað á mettíma hafa áhyggjur mínar tengdar faraldrinum í auknum mæli beinst frá heilsufari fólks að efnahagslegum þáttum. Vitanlega eru þessi svið samtengd en það er önnur saga. Ég hélt í fljótfærni að nokkrar vikur væru liðnar síðan ég tók viðtal við Kára Stefánsson, forstjóra ÍE, um útlit og horfur í bóluefnamálum, en það var þann 21. desember.  Sjá hér. 

Þann dag skaut Þórólfur sóttvarnalæknir þjóðinni skelk í bringu er hann sagði að raunhæft væri að hjarðónæmi með bólusetningu yrði náð fyrir árslok. Fréttir, byggðar á heimildum frá yfirvöldum, höfðu áður vakið sterkar væntingar um að þessu markmiði yrði náð fyrir vorið. Kári sagði við DV:

„Ég held að við höfum ekki staðið okkur sérstaklega vel í að útvega bóluefni. Ég held við höfum reitt okkur dálítið mikið á samflot með öðrum. Þetta er harður heimur sem við búum í. Það varð alveg ljóst í upphafi þessa faraldar að þegar á reynir þá er þarna bara hver fyrir sig og enginn fyrir aðra.“

Vandræðalega smáir bóluefnaskammtar sem Íslendingar eru að fá myndgerast með eftirminnilegum hætti í fréttaljósmyndum af afhendingu fyrstu skammta af bóluefni Pfizers laust fyrir áramót. Varningurinn líkist helst því sem blasir við þegar gengið er inn í yfirfulla geymslukompu á vinnustað: Tveir kassar af prentarapappír.

Ekki skal gert lítið út mikilvægi innihaldsins og þeim bólusetningum sem eru að eiga sér stað þessa dagana en fyrri væntingar um lausn frá faraldrinum virðast órafjarri.

Klúðrið og yfirbreiðslan

Hávær umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum undanfarið um meint klúður stjórnvalda við öflun bóluefnis. Klúðrið mun vera fólgið í því að vera í samfloti með ESB um innkaup á bóluefnum og ekki leita neinna annarra leiða með fram því. Margir hafa varið þessa stefnu með skírskotun til smæðar þjóðarinnar. Því er haldið fram að heilbrigðisráðuneytið hafi neitað aðstoð sérfræðinga við gerð viðskiptasamninga. Erfitt hefur reynst fyrir blaðamenn að vinna með slíkar vísbendingar vegna tregðu heilbrigðisráðuneytisins til að svara fyrirspurnum.

Undanfarið hefur síðan rignt yfir landslýð gleðifregnum af undirritun samninga heilbrigðisráðuneytisins við bóluefnaframleiðendur. Hafa Íslendingar nú tryggt sér nægilegt magn af bóluefni miðað við þá samninga. Gallinn er sá að bóluefnið sem samið hefur verið um hefur ekki verið framleitt og engar dagsetningar um afhendingu eru í samningunum.

Hinn illi grunur sem þetta hefur vakið var staðfestur í stórfrétt Fréttablaðsins í dag: Miðað við stöðuna núna verður aðeins búið að bólusetja lítinn hluta þjóðarinnar í lok næsta árs. Við fáum þetta bóluefni ekki að megninu til fyrr en 2022. Með öðrum orðum: Annað ár í efnahagslegu frosti er framundan. Í fréttinni segir:

„Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs. Hann segir það mikið áhyggjuefni að enginn af þeim samningum sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca innihaldi afhendingardagsetningar.

„Það hefur bara verið samið um magn en ekki um afgreiðslutíma,“ segir Kári. „Það eru engar dagsetningar í þessu. Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum. Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því að við verðum ekki búin að bólusetja nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs,“ segir Kári.“

Áramótaheitið

Ríkisstjórninni fylgja góðar óskir inn í nýtt ár, lokaár sitt, en kosningar verða annaðhvort í vor eða haust. Mikilvægasta verkefni stjórnarinnar er einfalt: að vinda ofan af bóluefnaklúðrinu. Allar efnahagssviðsmyndir velta á þessu atriði.

Ríkisstjórnin ætti að strengja það áramótaheit að leita allra mögulegra og ómögulegra leiða til að tryggja Íslendingum raunverulega nægilegt bóluefni til að náð verði hjarðónæmi fyrir mitt ár 2021. Leggjum það ekki í hendurnar á Evrópusambandinu að skammta okkur krepputíma með samkomutakmörkunum og hömlum á atvinnustarfsemi fram á árið 2022.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Helga Vala segir stórri spurningu ósvarað hvað varðar styrkjamál Flokks fólksins – „Er það ekki ögn sérstakt?“

Helga Vala segir stórri spurningu ósvarað hvað varðar styrkjamál Flokks fólksins – „Er það ekki ögn sérstakt?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“