Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, sakar Björn Þór Sigbjörnsson, dagskrárgerðarmann á Rás 1, og Guðmund Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, um virðingarleysi í garð líkamsræktarstöðvakeðjunnar World Class, sem og til einkaatvinnurekstrar í heild. Tilefnið er viðtal Björns við Guðmund sagnfræðing á Rás 1.
Sigríður ritar pistil um þáttinn og birtir skjáskot af frétt RÚV (sjá meðfylgjandi mynd) af uppsögnum World Class á 90 starfsmönnum:
„Björn Þór Sigbjörnsson á Rás 1 ræddi við Guðmund Hálfdánarson prófessor í sagnfræði á mánudagsmorgun. Guðmundur hefur verið áður í viðtali á sama vettvangi og er hann mjög hlynntur hvers kyns hömlum á atvinnurekstur, skóla og íþróttir í þágu sóttvarna. Ekki var morgunútvarpið vettvangur fyrir mismunandi skoðanir, eins og lög mæla fyrir um, þennan morguninn heldur lagðist þáttarstjórnandinn á árarnar með viðmælanda sínum og sagði: „Það eru helst tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Bjössi í World Class sem eru óánægðir.“
Sigríður bendir á að fyrirtækið World Class sé ekki einn maður, umræddur Björn Leifsson – Bjössi í World Class – heldur sé hagur nokkur hundruð fjölskyldna hér undir. World Class sagði upp 90 manns í dag en líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar stóran hluta úr árinu vegna sóttvarnareglna og mega ekki hafa opið:
„Þótt sjálfsagt hafi þetta verið notaleg stund hjá ríkisstarfsmönnunum við hljóðnemann þótti mér þetta virðingarleysi þeirra við atvinnurekstur í landinu ekki notalegt. Fyrirtæki eins og það sem þarna var nefnt eru ekki bara einn maður. Þarna er hagur nokkur hundruð fjölskyldna undir. Að ógleymdum viðskiptavinunum sem mæta á eigin ábyrgð sér til heilsubótar.“
https://www.facebook.com/sigridura.andersen/posts/1371814066551486