Jóhann Páll Jóhannsson, stjórnmálahagfræðingur og starfsmaður Samfylkingarinnar, deildi frétt The Independent í gær sem fjallaði um svokölluð Dominic Cummings-áhrif (e. Dominic Cummings effect), í sambandi við Þorláksmessumál Bjarna Benidiktssonar, fjármálaráðherra.
Líkt og alþjóð veit var Bjarni gripinn í samkvæmi í Ásmundarsal, þar sem 40-50 einstaklingar voru viðstaddir, grímulausir. Lögreglan stöðvaði samkvæmið. Síðan hefur Bjarni beðist afsökunar, en þó sagst ekki ætla að íhuga afsögn. Þá hafa Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ekki sagst ætla að krefjast afsagnar.
Sjá einnig: Nýjar vendingar í máli Bjarna – Neita því að reglur hafi verið brotnar á Þorláksmessu
Líkt og nafnið gefur til kynna þá varða Dominic Cummings-áhrifin, sem Jóhann minntist á, aðstoðarmann og pólitískan ráðgjafa Borisar Johnson, forsætisráðherra breta. Í maí síðastliðnum var greint frá því að Cummings hefði brotið sóttvarnarlög með löngu ferðalgi sínu frá Lundunúm, til Barnard-kastala í Durham. Málið olli miklu fjaðrafoki í Bretlandi og kröfðust margir afsagnar Cummings, sem var varinn af Johnson, sem gaf lítið fyrir sóttvarnarbrotin.
Í frétt The Independent er vísað í rannsókn sem birtist í lækna- og vísindatímaritinu Lancet, sem benti til þess að mál Cummings hafi grafið undan trausti almennings til stjórnvalda og sóttvarnareglna, en það eru hin svokölluðu Dominic Cummings-áhrif. Þá kemur fram að traust til stjórnvalda sé gríðarlega mikilvægt í baráttunni við heimsfaraldurinn.
Auðvelt er að bera saman mál Bjarna og Cummings. Jóhann gerir það í færslu sinni, en bendir á að Cummings hafi einungis verið aðstoðarmaður, en Bjarni sé ráðherra og einn leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Jóhann virðist því vera að spyrja sig út í áhrifin sem hegðun Bjarna muni bera í skauti sér.
„Höfum í huga að Dominic Cummings var aðstoðarmaður og pólitískur ráðgjafi, ekki ráðherra og einn af leiðtogum ríkisstjórnar eins og Bjarni Benediktsson. Samt er talið að „Dominic Cummings-áhrifin“ hafi grafið undan sóttvörnum í Bretlandi og þannig kynt undir útbreiðslu veirunnar – ekki síst vegna meðvirkni forsætisráðherrans sem fannst framferði Cummings afsakanlegt og ekki afsagnarsök.“
https://www.facebook.com/jpjohannsson/posts/10221236855223957