Skoðanapistill blaðamanns
Það var óhugur í Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í viðtali á Bylgjunni á Þorláksmessu. Hann var þá nýsloppinn úr sóttkví. Mikill mannsöfnuður átti sér þá stað í verslanamiðstöðvum höfuðborgarsvæðisins og í miðbæ Reykjavíkur. Allt of margir virtust ætla að láta ítrekuð tilmæli sóttvarnayfirvalda um að forðast mannfjölda í kringum hátíðirnar sem vind um eyru þjóta:
„Þorláksmessan er alltaf þannig þegar það er fullt af fólki á síðustu stundu með allt og þarf að vera á flandri alveg fram og til baka og þetta er náttúrlega kjöraðstæður fyrir veiruna að vera í svona degi og helst að geta hitt á einhvern einstakling sem fer víða og hittir marga. Það er alveg hreint það sem veiran elskar að gera.“
„Það eru alveg kjöraðstæður fyrir slíkt ef menn eru að fara víða og hitta marga og hittast í hópum og fara svo í næsta hóp og það er akkúrat, þannig gerist þetta, og þannig hefur þetta gerst frá því að þessi faraldur byrjaði.“
„Fyrst koma bara upp lítil smit í einstaka hópum og svo bara dreifa þau úr sér. Fólk fer áfram í næsta hóp og þá heldur bara ballið áfram.“
„Það virðist vera að það sé ekki nóg sagt, fólk verður að passa sig. Það er fyrst og fremst að vera ekki að hitta mjög marga, reyna að taka því rólega, vera heima, vera í fáum, litlum hópum og reyna bara að hægja á sér, vera ekki að þessu flandri út um allt, það er það sem að skapar þessa hættu.“
Sjálfur hélt Þórólfur sig til hlés á Þorláksmessu þó að hann væri kominn úr sóttkví.
Greinarhöfundur var að ljúka litlausri kvöldvakt á dv.is á Þorláksmessu þegar hann las úrdrátt úr þessu viðtali við sóttvarnalækni. Ég og konan mín urðum ásátt um að hlýða Þórólfi og sleppa Þorláksmessustemningunni þetta kvöldið. Hún gekk á móti mér úr Vesturbænum og við tókum hefðbundna kvöldgöngu heim og reyndum að sneiða hjá hópum sem urðu á vegi okkar. Mannfjöldinn var vissulega margfalt minni en á hefðbundnu Þorláksmessukvöldi, sem betur fer, en það var engu að síður töluverður mannsöfnuður í miðbænum.
Greinarhöfundur er sjálfur ekki alltaf til fyrirmyndar í sóttvörnum. Ég reyni að afsaka mig með rótgrónum vana. Ég gleymi oft að þvo mér um hendurnar. Ég er þó ekki alslæmur, ég gleymi t.d. næstum aldrei að taka með mér grímu þegar ég fer út úr húsi. En ég gleymi tveggja metra reglunni stundum þegar ég á samskipti við fólk sem ég þekki og ég gæti mín ekki nógu vel á hættunni á snertismitum.
En það var aldrei inni í myndinni að viðhalda Þorláksmessuhefðinni þetta árið. Ekki hvarflaði að mér að í mannsöfnuðinum óheppilega sem varð á Þorláksmessu væri að finna ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem hefur sett gífurlega íþyngjandi hömlur á daglegt líf fólks og atvinnustarfsemi á árinu með þeim afleiðingum að efnahagur þjóðarinnar er í rúst. Og það sjálfan fjármálaráðherrann.
Í viðtali sínu við Stöð 2 í gærkvöld lýsti Bjarni Benediktsson því yfir að hann teldi veru hans í samkvæmi í Ásmundarsal ekki kalla á afsögn sína sem ráðherra. Í leiðinni lýsti hann ýmsum athöfnum sínum á Þorláksmessukvöld sem mér virðast ganga gegn því sem sóttvarnalæknir grátbað almenning um í viðtalinu á Bylgjunni. Svo virðist sem fjármálaráðherra hafi ákveðið að breyta ekkert Þorláksmessuvenjum sínum þetta árið. Það er eins og hann hafi verið staddur á Þorláksmessu árið 2019 en ekki 2020. Hann fór í miðbæinn með eiginkonu sinni og þau fóru í blómabúð. Hann heimsótti vinahjón í miðbænum. Hann fór á sölusýningu í Ásmundarsal enda hafði hann gert það í fyrra líka!
Ég get með ítrasta góðvilja keypt skýringar Bjarna á því hvernig það sem hann upplifði sem saklaust rölt umbreyttist í eitthvað sem lítur út eins og ólöglegt drykkjusamkvæmi fyrir lögreglu og almenningi:
„Mér fannst ég ekki vera á leiðinni í einhver veisluhöld eða eitthvað samkvæmi, ég var að mæta á sýningu sem ég hef oft sótt. Ég mætti á frumsýninguna á þessu ári og keypti þarna jólagjafir í fyrra. Þannig að það var ekki mín upplifun að ég væri að fara í samkvæmi og í þau skipti sem ég hef komið þarna, og í opnuninni núna, þá var allt bara til fyrirmyndar en það átti kannski ekki við á Þorláksmessu.“
Ég get jafnvel leitt hjá mér vitnisburð um að Bjarni hafi verið búinn að vera á staðnum í 45 mínútur þegar lögregla kom og leysti upp samkvæmið, þó að óneitanlega veki þau orð tortryggni. Tímaskyn fólks er brigðult.
En jafnvel þó að maður teygi sig langt til að kaupa skýringar hans og afsakanir ber allt viðtalið með sér að fjármálaráðherra Íslands virðist blindur á inntak og anda sóttvarnaaðgerða á þessum tímapunkti. Það er eins og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra séu ekki í sama tíma og rúmi.
Athugið að ég er ekki skinheilagur vandlætari. Ég fordæmi ekki að fólk hafi farið á röltið á Þorláksmessu þó að mér finnist það óæskilegt. En gat einn valdamesti maður þjóðarinnar ekki neitað sér um það?
Viðtalið Bjarna var þó alls ekki alslæmt og þessi hluti var bestur:
„Mig langar í fyrsta lagi að segja að ég skil vel vonbrigði margra með að ég sé staddur í aðstæðum þar sem sóttvarnarreglur eru ekki hafðar í heiðri. Og það er ekki til eftirbreytni og ég sé mjög eftir því.“
Í næstu setningu segir hann hins vegar að hann líti svo á að atburðurinn kalli ekki á afsögn af hans hálfu. Hann sé að vinna svo mikilvæg verkefni sem engum öðrum virðist þar með treystandi fyrir.
Ég ætla að forðast að enda þennan pistil á stóryrðum. Það er svo auðvelt að grípa til þeirra og það er svo mikið framboð af þeim. En mig óar við afleiðingunum sem þetta atvik kann að hafa í för með sér. Forvitnilegt verður að fylgjast með því næstu daga hvernig tekst til við að bæta skaðann.