Samningar voru í dag undirritaður milli Nýs Landsspítala ohf. og verktakafyrirtækisins Eykt um uppsteypu á nýjum meðferðakjarna Landspítalans við Hringbraut. Upp úr stóru holunni sem borgarbúar hafa margir keyrt fram hjá undanfarna mánuði fer því bráðum að rífa 6 hæða nýr Landspítali. Sjá má tölvuteiknaðar myndir af byggingunni neðst í fréttinni.
Í tilkynningu Nýs Landspítala ohf. segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH að starfsmenn Eyktar og NLSH hafa á undanförnum vikum undirbúið verkið og er undirskriftin í dag stór áfangi í þeirri vinnu. „Verktakinn mun koma vel mannaður á nýju ári á verksvæðið og um leið hafa verið gerðir fjölmargir samningar vegna tæknilegra þátta, verkeftirlits, vinnubúða, öryggis- og aðgangsmála en einnig við danska áætlunargerðafyrirtækið Exigo. Það verður spennandi fyrir verktaka- og verkaupamarkaðinn að sjá framþróun þess í stórum verkum.“
Meðferðakjarninn verður um 70 þúsund fermetrar að stærð og er stærsta einstaka hús uppbyggingarinnar á svæðinu. Önnur hús eru rannsóknahúsið, bílastæða- og tæknihús og svo sjúkrahótelið sem þegar hefur verið opnað.
Framkvæmdastjóri Eyktar, Páll Daníel Sigurðsson, sagðist ánægður með fá að taka þátt í uppbyggingu á nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut. „Þetta er stórt og vandasamt verkefni sem Eykt er vel í stakk búið til að sinna. Við höfum langa reynslu af flóknum verkefnum sem unnin eru hér mitt í borginni, og Eykt mun leggja sitt að mörkum svo verkefnið gangi vel.“
Verkefni Eyktar á næstu misserum verða því að steypa upp undirstöður og tvo kjallara byggingarinnar ásamt því að koma upp vinnuaðstöðu á framkvæmdasvæðinu. Burðarvirki hússins eru veggir, súlur, eftirspenntar plötur auk botnplötu og undirstaðna, að því er kemur fram í tilkynningunni. Þá mun Eykt sjá um að steypa upp eftir 6 hæðir ofan á kjallarana, steypa tengiganga, leggja lagnir og smíða stálvirki við lyftukjarna byggingarinnar. Áætlað að mótafletur séu um 220.000 m² og steypan nær 60.000 m³ þegar allt er til talið.
Við hlið meðferðarkjarnans verður svo reistur tveggja hæða bílakjallari sem verður um 7.000 m².