„Að lokum höfum við náð þverpólitískri samstöðu um það sem landið hefur þörf fyrir, sagði McConnell að samningaviðræðum beggja flokka loknum. Ekki liggur enn fyrir hvenær þingið greiðir atkvæði um hjálparpakkann.
Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, segir að hjálparpakkinn njóti væntanlega það mikils stuðnings í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni að hann verði samþykktur. „Loksins getum við flutt bandarískum almenningi góðar fréttir,“ sagði hann.
Ef hjálparpakkinn verður samþykktur verður það í fyrsta sinn síðan í mars að ríkið grípur til aðgerða til að styðja efnahagslífið. Í nýja hjálparpakkanum felst að atvinnulausir fá 300 dollara á viku í fjárhagsstuðning og lítil fyrirtæki fá milljarða dollara í aukalegan stuðning. 25 milljarðar eru ætlaðir til að aðstoða fólk við að greiða húsaleigu ef það á í vandræðum með að standa undir leigunni.
Samningaviðræður hafa staðið yfir á milli Demókrata og Repúblikana mánuðum saman en illa gekk að ná saman. Helstu ágreiningsmálin voru hversu mikið fé ætti að renna til staðaryfirvalda í ríkjum landsins og hversu mikið fyrirtæki og skólar ættu að fá.