fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Eyjan

„Óskaplega finnst mér vænt um að þú reifst þig undan grímunni, sýndir þitt rétta andlit“

Jón Þór Stefánsson
Mánudaginn 21. desember 2020 09:40

Samsett mynd - Steingrímur og Guðni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku birtist grein eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, þar sem hann gagnrýndi Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, og baráttu hans fyrir hálendisþjóðgarði. Seinna í sömu viku svaraði Steingrímur honum Guðna fullum hálsi, þar sem hann sagðist þó ekki hafa áhuga á að hefja neina ritdeilu. Nú hefur Guðni svarað svargrein Steingríms.

Sjá einnig: „Það hryggir mig“ – Guðni tjáir sig um þjóðgarðsmálið – „Hvers á hálendið að gjalda?“

Sjá einnig: „Ég finn til í öllu brjóstinu“: Steingrímur lætur Guðna heyra það – „Samsafn af rökleysum og þvættingi“

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag fjallar Guðni um „upphafinn alhæfingarstíl“ pistla sinna, en Steingrímur fullyrti að væri ansi áberandi. Hann segist átta sig á því að báðir eigi þeir til að færa málflutning sinn í miklar hæðir. Lengi hafi fólk vitað að Steingrímur væri einn besti ræðumaður Alþingis, en segir þó að hann talaði með tveimur tungum. Og þá segir hann vera að mörgu að taka ætli maður að draga upp mynd af báðum hliðum Steingríms.

„Það var gaman að lesa margorða skýringu forseta Alþingis Steingríms J. Sigfússonar á hvað „grenjandi minnihluti – mikill minnihluti“ þýðir á norðlenskri tungu. Steingrímur ræðir mjög „upphafinn alhæfingarstíl“ sem greinarhöfundur setji fram og hæðir undirritaðan fyrir baráttu fyrir að vilja endurreisa brjóstvörn bænda með landbúnaðarráðuneyti og umgjörð um íslenskan landbúnað.

Við skulum aðeins ræða hver hjó þar fastast. Ég geri mér grein fyrir því að við Steingrímur eigum það sameiginlegt að færa umræðu og málflutning okkar í nokkrar hæðir. Þar liggur sjálfsagt bæði styrkur okkar og veikleiki. En um árabil var Steingrímur talinn einn magnaðasti ræðumaður Alþingis og við héldum þá að sannfæring fylgdi alltaf máli. Hitt vissum við einnig að ræðustíll Steingríms minnti á sósíalistaforingja, með hnefann á lofti og stundum braust fram í orðum hans og gjörðum örlítið grenjandi „fól“. Sannarlega á Steingrímur tungur tvær og talar sitt með hvorri. En það er af mörgu að taka vilji maður vera svo óknyttinn rétt fyrir jólin að bregða upp mynd af hinum tvíhöfða Steingrími J. Sigfússyni.“

Þá birtir Guðni tíu punkta í grein sinni, þar sem hann fer yfir margt í íslenskum stjórnmálum seinustu fjörutíu ára. Þar gagnrýnir hann Steingrím og flokk hans, Vinstri græna, fyrir mismunandi hluti, líkt og virkjanir, loforð um ESB, Skjaldborgina og Icesave.

„1. Steingrímur segist ekki geta hugsað sér að fleiri hervirki rísi á hálendinu. Þar hefur orðið stefnubreyting því Steingrímur sat í ríkisstjórn 1988-1991 og sú ríkisstjórn hafði áform um að framkvæma fyrsta hluta stórvirkjana á Austurlandi með því að sökkva Eyjabökkum, vegna raforkunýtingar (álvers) á suðvesturhorninu, í Keilisnesi. Alla þessa orku átti svo að leiða þvert yfir miðhálendið norðan jökla í línum og miklum háspennumöstrum, þangað sem draumaálverið átti að rísa. Þegar ekki fannst kaupandi að orkunni féll ævintýrið um sjálft sig! Nú er öll orka Austurlands nýtt í heimabyggð til atvinnuuppbyggingar.

VG var stofnað sem náttúruverndarflokkur árið 1999, en hafði gleymt þeim uppruna sínum þegar ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar var mynduð árið 2009. Um það vitnar kísil- og kolaverið á Bakka við Húsavík, sem ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu stóð að. En þar er jafnvel seilst inn á vatnasvæði Skjálfandafljóts með ógn við náttúruperluna Aldeyjarfoss.

2. Ekki vefst það fyrir Steingrími að eigna sér að áformin um að sökkva Þjórsárverum voru stöðvuð. Árið 2001 var undirritaður ráðherra í ríkisstjórn og setti fram kröfu um að „ekki lófastór blettur af Þjórsárverum fari undir uppistöðulón“. Síðar var það framsóknarmaðurinn Jón Kristjánsson, settur umhverfisráðherra, sem stækkaði friðlandið.

3. Við skulum svo bregða okkur nær tímanum. Fyrir kosningar 2009 sagði Steingrímur kortéri fyrir kosningar að aldrei yrði sótt um aðild að ESB á hans vakt. Hins vegar var það fyrsta verk ríkisstjórnar hans og Jóhönnu Sigurðardóttur að sækja um aðild. Þetta var gert með braki og bramli í flokki vinstri-grænna og enginn gleymir hvernig félagar hans voru lamdir og uppnefndir „villikettir“. Þá missti foringinn fimm þingmenn fyrir borð en kosningaloforðið varð að svikamyllu.

4. Jafnframt skírðu þau Jóhanna ríkisstjórnina „skjaldborgina um heimilin“. Allir muna að fjármálaráðherrann hafðist lítið að þegar þúsundir fólks misstu heimilin sín vegna hrunsins.

5. Enn muna menn ICESAVE-kröfu Breta og Hollendinga og hvernig ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu vildi greiða skuldir óreiðumanna og láta saklausa launamenn á Íslandi yfirtaka þá skuldabyrði. Þessu neitaði þá Ögmundur Jónasson félagi þinn og sagði af sér ráðherraembætti í mótmælaskyni. Framsóknarflokkurinn barðist gegn þeim áformum og forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson vísaði málinu í tvígang í þjóðaratkvæði. Þjóðin hafnaði öllum kröfum um að borga þessa vitleysu. Ólafur Ragnar forseti hafði enn lagt vinstrimenn á lær sér.

6. Miklir gæfumenn voru svo framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni 2013-2016. Þeir lækkuðu skuldir heimilanna og jafnframt tóku þeir eignarnámi vogunarsjóðina eða svokallaða hrægammasjóði og greiddu niður skuldir ríkisins. Hugsaðu þér, Steingrímur Jóhann, nú hefur ríkisstjórnin okkar orðið að skuldsetja ríkissjóð upp á 600 milljarða út af Covid-kreppunni; nákvæmlega þá upphæð sem hirt var með lögum af hrægömmunum.

7. Svo vil ég minnast á hinn þríeina Steingrím sem þrisvar settist í stól landbúnaðarráðherra, 1988-1991 og 2009 og 2011-2013. Hvert var svo erindið í seinni tvö skiptin? Að höggva sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin niður og breyta þeim í hið ógnarstóra atvinnuvegaráðuneyti þar sem landbúnaðurinn fór í eldspýtnastokk ofan í vindlapakka og ofan í skúffu. Þetta voru þín verk, Steingrímur. Og auðvitað að höggva hinn þjóðholla flokksbróður þinn Jón Bjarnason út, hann neitaði að ESB yfirtæki þessar matvælaauðlindir Íslands. Mitt hlutverk er nú að krefjast þess að landbúnaðurinn verði ekki sá umkomulausi dvergur sem hann varð í Jóhönnustjórninni og er enn.

8. Hvað kaup útlendinga á bújörðum varðar þá fengu 480 milljónir Evrópubúa sama rétt og Íslendingar til að kaupa bújarðir hér í EES. Þá vorum við báðir á móti, en á þeim tíma varstu í Alþýðubandalaginu. Ég hins vegar stóð frammi fyrir því sem landbúnaðarráðherra nokkru síðar að svokölluð girðingarlög stóðust ekki. Svo og ákvæði um að hreppsnefndir hefðu það vald að taka af einstaklingum jarðir og selja þær öðrum á sama fundi eða krefja menn um að skrá sig og byggja allar eignarjarðir. Þarna sagði bæði stjórnarskráin og Hæstiréttur að svona lög væru mannréttindabrot.

9. Hvað varðar svo ykkur Guðmund Inga umhverfisráðherra þá eruð þið báðir vinstrimenn, og hann í alvöru. Þið eigið ykkur draum um sæluríkið. Hálendisþjóðgarðurinn verður stærsta sveitarfélag Íslands og þar býr enginn maður en þjóðin mun borga og gjalda fyrir ofríkið með sköttum í milljörðum talið með læstum hliðum og stóru allsherjarbanni. Bændur og búalið og frjálsir ferðamenn, Vegagerðin og Landsvirkjun verða óvinir „fjölskyldugarðsins ykkar“, þegar og ef vinstrivillan hertekur afrétti og miðhálendi. Náttúruverndarfólk er í öllum flokkum og þjóðin vill sitt hálendi án harðstjórnar og öfgaaflanna. Látið þá um hreppsnefndina sem með hana fara í dag. Þeir vinna svo með forsætisráðherra hvers tíma sem fer með þjóðlenduna með góðu fólki hringinn um landið.“

Í seinasta punkti sínum segist Guðni hafa verið glaður þegar að Steingrímur „tók af sér grímuna og sýndi sitt rétta andlit“, en samkvæmt Guðna var hann farinn að leika einhvern annan en sjálfan sig.

„10. Þetta er svona rifjað upp sem brot af því merkilegasta sem drifið hefur á þína daga í þeirri löngu eilífð sem þú hefur starfað á Alþingi. Eitt er víst að þú átt langflestar ræður sem þingmaður hefur flutt á Alþingi í þúsund ár. En þær vitna um breytilegan og frjálslyndan mann sem kann að skipta um skoðun, enda miklar breytingar átt sér stað frá 1983 til 2020. En óskaplega finnst mér vænt um að þú reifst þig undan grímunni, sýndir þitt rétta andlit og hættir að leika eitthvað allt annað en sjálfan þig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör