„Framtíð okkar í orku- og umhverfismálum mun byggjast á kjarnorku. Ég hef aldrei verið stuðningsmaður þess að við treystum eingöngu á kjarnorku en hún á að vera hornsteinn næstu árin,“ sagði Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, nýlega þegar hann heimsótti verksmiðju Framatome í Bourgogne en í verksmiðjunni er framleiddir hlutir fyrir kjarnorkuver.
Kjarnorka á að vera hornsteinninn í umhverfisstefnu Frakka en lítil losun CO2 fylgir kjarnorku. Ríkisorkufyrirtækið EDF á að leggja fram áætlun næsta sumar um smíði sex nýrra EPR-kjarnaofna að andvirði 45 milljarða evra. EPR eru þriðju kynslóðar þrýstivatnskjarnaofnar sem eru sagðir vera kjarnaofnar framtíðarinnar. Þeir voru hannaðir og þróaðir af Framatome og EDF í Frakklandi og Siemens í Þýskalandi.
Auk kjarnaofnanna hafa frönsk stjórnvöld pantað nýtt kjarnorkuknúið flugmóðurskip sem á að koma í stað „Charles de Gaulle“ en ekki er reiknað með að það gerist fyrr en 2038. Skipið mun kosta 7 milljarða evra. Hönnun þess mun standa yfir fram til 2025 en þá hefst smíði þess í Saint-Nazaire en henni á að ljúka 2036 og þá tekur við tveggja ára tilraunatímabil áður en flotinn fær skipið formlega afhent.