Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í september hafi rúmlega 1.000 fasteignir skipt um eigendur á höfuðborgarsvæðinu. Sölurnar voru aðeins færri í október og nóvember. Eftirspurnin var mikil og því hækkaði verðið og seljendamarkaður myndaðist.
Frá 2016 til 2019 voru að jafnaði gerðir um 12.000 kaupsamningar vegna fasteignaviðskipta. Reiknað er með að þeir verði 20% fleiri á þessu ári og verði um 14.000 að sögn Kjartans Hallgeirssonar, löggilts fasteignasala hjá Eignamiðlum og formanns Félags fasteignasala.
„Vegna mikillar sölu að undanförnu eru færri íbúðir á skrá nú en oft áður og fyrir vikið hefur ástandið aðeins róast. Hringekjan á markaðnum sem fasteignaviðskipti byggjast á fer hægar nú en var fram eftir árinu. Síðustu misseri hafa nýjar fjölbýliseignir ætlaðar fólki sextugu og eldra í talsverðum mæli komið í sölu og verið keyptar. Fyrir vikið hefur fjöldi sérbýlis- og ráðhúsa losnað,“ hefur Morgunblaðið eftir honum. Hann sagði einnig að hagstæð lánskjör hafi orðið til að ungt fjölskyldufólk hafi tekið stökkið og keypt slíkar eignir og farið úr litlu íbúðunum. Þær kaupa síðan þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð en bankarnir hafa verið að bjóða þeim allt að 90% lán.