Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar svaraði hann pistli Guðna Ágústssonar, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og framsóknarmanni, sem hafði gagnrýnt Steingrím og hugmyndina um hálendisþjóðgarð.
Steingrímur segist ekki hafa áhuga á að herja ritdeilu við Guðna, en segir að hann hreinlega verði að mótmæla grein hans vegna þeirrar „rökleysu og þvættingnum“ sem fram kemur í henni.
„Ekki stendur hugur minn til þess að hefja ritdeilu við Guðna Ágústsson. Grein Guðna í Morgunblaðinu í dag, 16. desember, er svo mjög í hans upphafna alhæfingastíl að það fer að verða erfitt fyrir hann að toppa sig. Þó er það kannski ábyrgðarhlutur að láta ómótmælt slíku samsafni af rökleysum og þvættingi sem fram kemur í greininni þegar nafn manns kemur þar fyrir innan um í hrærigrautnum.“
Í upphafi pistils síns skýtur Steingrímur að verkum Guðna sem landbúnaðarráðherra og gefur í skyn að arfleið hans þar sé ekki sú besta.
„Guðni hefur í skrifum sínum að undanförnu erfiðað nokkuð við að selja mönnum þá kenningu að hann sé sérstakur verndari bænda og landbúnaðarins. Eigum við þá kannski að skoða við tækifæri arfleifð hans sem landbúnaðarráðherra og breytingar á jarðalögum í hans tíð?“
Þá birtir Steingrímur þrjá svarapunkta við pistli Guðna. Hann segir til að mynda að þegar hann hafi sagt „grenjandi minnihluti“, líkt og frægt er orðið, þá hafi hann átt við stóran meirihluta, en ekki meirihluta sem væri að gráta eða grenja. Hann vísar einnig til skoðanakannana sem bentu til þess að mikill minnihluti væri á móti þjóðgarðinum og þá segir hann þvætting að bændur verði reknir í burtu, þvert á móti verði þeim veitt sterk staða.
„1. Örlítið um málnotkun. Samkvæmt mínu norðlenska tungutaki eða málvitund þýðir orðið grenjandi minnihluti = mikill minnihluti. Samanber einnig grenjandi stórhríð eða grenjandi rigning, sem sagt mikið af hvoru tveggja. Hefur ekkert með grát að gera og vonandi hefur Guðni ekki misskilið það.
2. Ég var ekki að vísa til bænda, ekki útivistarhópa, ekki náttúruunnenda, sem unna hálendinu eins og það er upplýsir Guðni, þegar ég talaði um hinn „grenjandi“, sem sagt „mikla“, minnihluta í minni ræðu. Það er Guðni sem í sinni dæmalausu grein flytur þessa aðila á einu bretti yfir í þann minnihluta sem ég var að vísa til. Ég var að vísa til þeirra 10% þátttakenda í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar 2018 sem lýstu sig andvíg eða mjög andvíg stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Í sömu könnun lýstu um 63% sig hlynnt eða mjög hlynnt stofnun slíks þjóðgarðs. Tíu prósentin sem lýstu andstöðu leyfði ég mér sem sagt að kalla örlítinn eða mjög mikinn („grenjandi“) minnihluta. Það er tölfræðilegt mat en hefur ekkert með skoðanafrelsi eða virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum að gera.
3. Það er þvættingur sem hvergi á sér stoð í frumvarpinu um hálendisþjóðgarð að, eins og Guðni orðar það, og koma nú beinar tilvitnanir í grein hans; „taka eigi stjórnina af sveitarfélögunum og bændum“, að „ríkisstofnun í Reykjavík taki að sér afréttarlöndin, sekti og rukki alla unnendur hálendisins, reki bændur og sauðkindina til byggða“.
Hið rétta er að sveitarfélögunum er tryggð mjög sterk, í raun ráðandi staða í stjórnkerfi fyrirhugaðs þjóðgarðs. Bændur, þ.e. virkir bændur í skilningnum nýtendur auðlinda innan þjóðgarðsins, fá sína fulltrúa við borðið. Allar hefðbundnar nytjar, þar með talið upprekstur og beit, veiðar o.s.frv. halda sér innan þjóðgarðsins að því skilyrði uppfylltu að þær séu sjálfbærar (sem þær auðvitað eiga þegar að vera samkvæmt ýmsum gildandi lögum og reglum). Frumvarpið færir heimaaðilum aukin völd og áhrif úti á svæðum þjóðgarðsins frá því sem er í dag, stuðlar að atvinnuuppbyggingu og skapar mikil framtíðartækifæri. Samanber mjög upplýsandi og málefnalega grein sem birtist fyrir tilviljun í sama tölublaði Morgunblaðsins eftir Evu Björk Harðardóttur oddvita Skaftárhrepps (Guðni óheppinn þar).“
Að lokum segir Steingrímur að hann þurfi enga leiðsögn frá Guðna hvað varðar tilfinningar íslenskra bænda. Hann segist vera í góðu sambandi við þá og smala með þeim á hverju ári, hann lýti í raun á þá sem samherja í þessu máli.
Steingrímur segist þurfa að vera hreinskilinn. Hann hreinlega geti ekki séð fleiri „hervirki“ á hálendinu, líkt og Kárahnjúkavirkjun. Og spyr hvar Guðni hafi verið þegar hún var reist.
„Eina jákvæða sjónarhornið sem mér dettur í hug á grein Guðna er að þetta sé órímuð öfugmælavísa.
Ég þarf ekki leiðsögn frá Guðna Ágústssyni um tilfinningar íslenskra bænda til landsins og hálendisins. Ég smala með þeim hvert haust og hef farið margar ferðir ríðandi í hópi bænda um hálendið. Ég lít á bændur og aðra náttúruunnendur, útivistarfólk, veiðimenn, alla þá sem hafa yndi af ferðum um og dvöl á hálendinu hvort sem þeir notast við fæturna á sjálfum sér, fæturna á hestum, jeppa eða mótorhjól, gönguskíði eða vélsleða á vetrum sem samherja í þessu máli. Í því að vernda hálendi Íslands og skila því sem óspilltustu til komandi kynslóða. Ég skal vera alveg hreinskilinn; ég bara get ekki hugsað mér fleiri hervirki a la Kárahnjúkavirkjun á hálendi Íslands (og hvar varst þú þá Guðni minn?). Ég finn til í öllu brjóstinu ef ég hugsa um risavaxna háspennulínu í lofti yfir Sprengisand (milli Hofsjökuls/Arnarfells hins mikla og Tungnafellsjökuls, rétt vestan við Tómasarhaga, öðrum hvorum megin við Fjórðungsöldu og kannski niður í Kiðagil). Erum við búin að gleyma hversu stutt er síðan það átti að sökkva Þjórsárverum?
Nei, þetta snýst ekki um að taka neitt af neinum, hrekja einn eða neinn í burtu. Þetta snýst um að leyfa okkur og komandi kynslóðum að eiga hálendið áfram saman. Þeim sem landið byggja og gestum þeirra að njóta þess án þess að það spillist, og varðveita og nýta á sjálfbæran hátt mestu auðlind Íslands, með fullri virðingu fyrir fiskimiðunum, landið okkar.“