fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Eyjan

Smári segist hafa varað Guðmund við – „En hingað erum við komin og ég verð að segja, Vá“

Jón Þór Stefánsson
Þriðjudaginn 15. desember 2020 09:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, gagnrýnir nálgun ríkisstjórnarinnar hvað varðar málefni hálendisþjóðgarðs í pistli sem birtist á Vísi í dag og ber titilinn Hvernig klúðra skal hálendisþjóðgarði. Smári segir að í raun séu flestir landsmenn hlynntir hugmyndinni, en ríkisstjórninni hafi ekki tekist að varast að stór hluti myndi skindlega snúast á móti henni.

Hann segist hafa átt samtal við Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfisráðherra, í sumar þar sem hann varað hann við.

„Þegar ég átti stutt samtal við Umhverfisráðherra í sumar sagði ég honum að það væri algjört lykilatriði að fá ekki þúsund litla hópa upp á móti hálendisþjóðgarði. Markmiðið væri gott og stuðningur við þjóðgarðinn í skoðanakönnunum. Það þyrfti hins vegar að varast að þriðjungur landsins yrði afmarkaður undir hálf-fasíska víðáttu sem hentaði bara ákveðinni tegund göngugarpa, sem báðir væru í VG. Ég tók kannski ekki alveg svona sterkt til orða þá, enda var vonin að það væri óþarfi.“

Smári segir að í raun hefði einungis einni ríkisstjórn tekist að koma málinu á þennan stað, en það væri „ríkisstjórn Sameinaðs Íhalds“. Að mati Smára eru nokkurn veginn allir sammála um að vernda þurfi íslenska náttúru, en klúðrið hafi falist í því að láta þjóðgarðinn snúast meira um að banna fólki, frekar en að vernda náttúruna.

„En hingað erum við komin og ég verð að segja: Vá. Eingöngu þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Sameinaðs Íhalds, gæti tekið mál sem flestir landsmenn eru í grunninn sammála og útfært það með svo afleitum hætti að flestir landsmenn snúast gegn tillögunni.

Það eru meira eða minna allir, ef frá eru taldir örfáir náttúrulausir stóriðjusinnar, sammála um að vernda eigi hálendi Íslands. Öræfi eru auðæfi og nær fullkomin samstaða um að við pössum upp á náttúruna okkar fyrir komandi kynslóðir.

En samt tókst ríkisstjórninni að klúðra málunum. Flokkarnir sem sitja núna í ríkisstjórn gátu bara ekki stillt sig um að reyna að stjórna hegðun fólks, jafnvel þegar hún er fullkomlega eðlileg og meinlaus. Verndin þeirra snýst minna um að varðveita náttúruna (enda virðist nóg svigrúm í frumvarpinu fyrir virkjanir) og meira um að koma í veg fyrir að fólk megi njóta hennar á vegu sem er ekki Sameinuðu Íhaldi þóknanleg.

Markmiðið hefði átt að vera: Koma í veg fyrir náttúruspjöll, m.a. í formi stóriðju, óafturkræfrar eyðileggingar og útþenslu byggðar.

Markmiðið reyndist vera: Banna fólki að njóta svæðisins nema á mjög afmarkaða vegu.

Sameinað Íhald getur bara ekki að þessu gert. Þetta er í þeirra eðli.“

Þá tekur Smári dæmi um það hvernig hann hefði útfært hugmyndina, út frá frjálslyndum og umhverfisvænum gildum og ber svo saman við sjálft frumvarpið.

„Eftir að allt fór í skrúfuna hjá ríkisstjórninni velti ég fyrir mér hvernig hálendisþjóðgarður liti út ef hann væri hugsaður út frá frjálslyndum og umhverfisvænum gildum. Fyrsta uppkastið að niðurstöðu er:

Þjóðgarðurinn yrði með náttúruverndaráætlun sem myndi fylgja fjármagn til að sinna rannsóknum, huga að uppgræðslu og sinna viðhaldi. Það væru landverðir sem hefðu það hlutverk að leiðbeina og fræða frekar en að banna og skamma. Rekstur þjóðgarðsins væri hugsaður sem sameiginlegt verkefni samfélagsins og allir hagsmunaaðilar, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki, væru í nánu samráði um allar tímabundnar lokanir á einstökum svæðum í þágu náttúruverndarmarkmiða.

Nú grunar mig að einhver sem komu að gerð frumvarps um hálendisþjóðgarð lesi þessa lýsingu og hugsi með sér: „En það er nákvæmlega það sem við gerðum!“ Nema hvað, í frumvarpinu stendur:

• „Hálendisþjóðgarði er heimilt … að taka eignarnámi land, mannvirki og réttindi,“ og

• „í reglugerð … skal setja reglur um dvöl, umgengni og umferð … tjöldun og umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda, sem og um umferð vélknúinna ökutækja, báta, skipa, loftfara, flygilda og hvers konar annarra farartækja,“ og

• „er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum,“ og

• „Afla skal leyfis … fyrir flugvéla- og þyrlulendingum …“ og

• „afla leyfis … fyrir notkun flygilda,“ og

• „heimilt að setja skilmála um umferð loftfara,“ og

• „skilmálar geta falið í sér bann eða takmarkanir“ og

• „takmarka umferð á einstökum vegum, slóðum eða svæðum“

Og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis.“

Að lokum segir Smári segir síðan hafi gráu verið bætt ofan á svart þegar að þeir sem geri athugasemdir við frumvarpið hafi verið kallaðir „hávær grenjandi minnihluti“. Hann segist í grunnin vera hlynntur hugmyndinni, en að markmiðið eigi ekki að snúast um að stjórna fólki.

„Það að kalla þau sem gera athugasemd við þessar takmarkanir „grenjandi minnihluta“ mun síðan ekki sannfæra neinn um að farið verði vel með allt þetta vald og að til verði gott jafnvægi milli náttúru og fólks. Í rauninni er 17. grein frumvarpsins nóg ─ ekki spilla, ekki raska. Ókei, flott. Við erum öll sammála. En í 18. grein byrjar stjórnlyndið að ná út fyrir þetta augljósa og sjálfsagða markmið, og þegar það er sett í samhengi við allt valdið og alla refsigleðina þá renna á menn tvær grímur.

Bara til að það fari ekki á milli mála: Ég er í grunninn ákaflega hlynntur stofnun hálendisþjóðgarðs ─ það væri hægt að vernda náttúruna fyrir stórfelldri iðnvæðingu og eyðileggingu, og á sama tíma stórefla þennan vettvang mannlífs.

En það er ekki svo að við fáum að aðgreina okkur frá náttúrunni, og það er ekki gagnlegt að náttúran sé óaðgengileg, þótt við sameinumst um að vernda hana. Þannig myndu glatast lærdómstækifærin, skilningurinn, og ─ eitthvað innilega mannlegt. Og þegar reglurnar eru hafðar svo stífar að aðeins örfáir geti notið, þá er ekki lengur verið að sinna náttúruvernd, heldur frekar pólitísku áhugamáli þeirra sem geta ekki stillt sig um að segja fólki fyrir verkum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör