Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, gagnrýnir stjórnendur OR vegna yfirvofandi vatnsskorts á frostdögum í grein í Fréttablaðinu í dag.
Á köldum dögum hefur OR varað notendur við yfirvofandi heitavatnsskorti vegna kulda. Árni bendir á að nú sé árið 2020 og gagnrýnir að aflgeta hitaveitunnar nægi ekki til að standa undir álagi þegar frost er samfellt í nokkra daga. „Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeislaðri svo ekki sé minnst á þá sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu langt umfram þarfir Hitaveitunnar. Ljóst er að nýting jarðhitakerfanna á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar fyrir 30 árum í jafnvægi og sjálfbær. Reynslan hefur kennt veitunni áþreifanlega samanber ofangreint að ekki er í boði að auka álagið á þau,“ segir Árni í grein sinni.
Árni segir að gjaldskrá hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu sé hærri en hjá helstu hitaveitum landsins. „Eigendur Hitaveitunnar, íbúar höfuðborgarsvæðisins, eiga rétt á að vera upplýstir um hvers vegna hún hefur hafnað í þessari ótrúlega slæmu stöðu að geta ekki í kuldatíð fullnægt hitaþörf notenda,“ segir Árni.
Hann segir jafnframt að hitaveitan hafi marga möguleika til að til að koma í veg fyrir hættu á vatnsskorti í framtíðinni. Hann dregur fram fimm punkta þar sem hann tilgreinir vafasamar ráðstafanir og bendir meðal annars á að nokkrir af miðlunargeymum veitunnar á Öskjuhlíð hafi verið teknir undir aðra starfsemi. Þá segir hann að flutningsgeta Nesjavallaæðar hafi skerst um 18% genga mistaka í rekstri Nesjavallavirkjunar.