Stórmarkaðir hafa fengið þær upplýsingar úr stjórnkerfinu að meiri líkur séu á að Bretar kveðji ESB án þess að samningar náist en að þeir náist. The Sunday Times skýrir frá þessu. matvælaframleiðendur hafa varað við að í kjölfar samningslausrar útgöngu muni verða skortur á grænmeti í þrjá mánuði. Auk þess er reiknað með að örvænting grípi um sig og að fólk hamstri ýmsar vörur.
Á laugardaginn var röð flutningabíla á A20 hraðbrautinni við Dover í Kent 5 kílómetra löng. Í Calais, í Frakklandi, var röðin 15 kílómetrar. Segja flutningafyrirtækin að ástæðan sé mikil innkaup breskra stórverslana.
The Sunday Times segir að breskir ráðherrar hafi beðið innflytjendur lyfja, lækningatækja og bóluefna um að auka við birgðir sínar þannig að þær dugi í sex vikur og að sjá til þess að birgðirnar séu geymdar á öruggum stöðum í landinu. Blaðið segir einnig að ríkisstjórnin sé að undirbúa hjálparpakka upp á marga milljarða punda fyrir þá geira sem verða verst úti ef samningar nást ekki við ESB. Meðal þeirra eru sauðfjárbændur, sjómenn og bílaframleiðendur en þeir mega illa við að tollar leggist á vörur þeirra frá 1. janúar.