fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Ólafur Ragnar óttast ekki að rugga bátnum: Ég fann leiðir framhjá prótókollinu

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 13. desember 2020 08:00

Ólafur Ragnar Grímsson í gönguferð með Samson. mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Ragnar Grímsson hefur fundið nýjan takt í lífinu. Hann fer enn alla morgna í kraftgöngu og er í sífelldri leit að ögrandi áskorunum. Ólafur segir hægt að draga ákveðinn lærdóm af sögum í nýútkominni bók hans um samskipti hans við ráðamenn um allan heim.

Hér má lesa í heild sinni forsíðuviðtal við Ólaf sem birtist í helgarblaði DV 4. desember.

 

„Ég hef alltaf þurft andlega áskorun til að vera hamingjusamur og njóta mín í störfum. Þótt ég sé bráðum áttræður get ég enn blessunarlega fundið mér andlega ögrandi verkefni,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson. Fjögur ár eru síðan hann lét af embætti forseta Íslands, embætti sem hann sinnti í tuttugu ár og endurskilgreindi á margan hátt. Rúmlega tvítugur hóf hann störf sem þingfréttaritari á Tímanum og það varð ekki aftur snúið.

Ólafur var prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, þingmaður, formaður Alþýðubandalagsins, ritstjóri Þjóðviljans, fjármálaráðherra og forseti alþjóðlegu þingmannasamtakanna Parlamentarians for Global Action svo fátt eitt sé nefnt. Og auðvitað forseti Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson. Mynd/Valli

Eins og að taka þátt í rúllettu

Hann segir það hafa verið ágæta hvíld frá vettvangi íslenskra þjóðmála þegar hann lét af embætti forseta.„Ég held auðvitað áfram að fylgjast með og ræði við ýmsa íslenska ráðamenn ef þeir leita eftir því. Blessunarlega er þó engin löngun til að vera áfram á þeim velli. Ég fann mér nægar annir við að byggja upp Hringborð Norðurslóða og sinna alþjóðlegum verkefnum á sviði loftslagsmála og hreinnar orku. Síðan hafa skrifin bæst við. Það hafa verið forréttindi að geta notið þess að sjá nýjar kynslóðir taka við áhrifastöðum í landinu. Ég persónulega fann mér engar áskoranir þar lengur. Eftir hálfa öld á sviði íslenskra stjórnmála gat ég nánast talað um þau í svefni, ég kunni þau utanbókar. Eitt af því sem heillaði mig við Hringborð Norðurslóða er hversu mikið ónumið land var þar á sviði rannsókna, stjórnmála og umhverfismála,“ segir hann. Frá árinu 2013 hefur Hringborð Norðurslóða verið haldið árlega í Hörpu þar sem um 2 þúsund þátttakendur frá sextíu löndum koma saman. En í ár var ráðstefnunni frestað vegna kórónufaraldursins, eins og svo mörgu öðru.

Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs, fékk veiruna snemma í vor. „Hún var nokkuð veik í rúmlega vikutíma. Hún dvaldi þá meira og minna í móki hér í lokuðu herbergi. Ég sá þá um að elda mat fyrir hana og skildi eftir fyrir utan dyrnar. Hún vildi ekki borða mikið en ég eldaði handa henni grænmeti, laxbita og fleira sem henni finnst gott. Það tók hana síðan þó nokkurn tíma að ná fyrri styrk. Hún er reyndar hörð af sér og fljótlega eftir að hún komst á ról byrjaði hún að fara í gönguferðir, jafnvel upp á Esjuna. Það tók hana síðan einn til tvo mánuði að ná fyrri orku eftir að hún var laus við sjúkdóminn. Þetta sýnir manni að þetta er engin venjuleg flensa. Það að veikjast af Covid er eins og að taka þátt í rúllettu í spilavíti. Þú getur skyndilega tapað illilega.“

Sögur fyrir framan arineldinn

Eftir að Dorrit hafði náð sér blasti við að Ólaf vantaði verk efni. Þá rifjaðist upp fyrir honum hvatning frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að skrifa bók um kynni sín við áhugavert áhrifafólk um allan heim. Hvatningin kom eftir að Kári leitaði liðsinnis hjá Ólafi í glímu sinni við kínversk stjórnvöld. Úr varð bókin „Sögur handa Kára“ sem er nýkomin út á prentuðu formi en var gefin út á hlaðvarpi í byrjun september í samstarfi við Storytel. En það stóð aldrei til að skrifa neina bók.

„Þetta var í raun og veru óvart og á engan hátt í samræmi við þær áætlanir sem ég hafði í upphafi árs en eins og hjá flestum hefur þetta ár sett margt á hvolf. Ég byrjaði að skrifa sögurnar mér til skemmtunar og þetta var meira dundur en nokkuð annað. Þegar komið var fram á sjómannadaginn voru sögurnar orðnar 34 og ég stóð frammi fyrir því að ákveða hvað ég ætti að gera við þær. Dætur mínar og nokkrir vinir höfðu lesið sögurnar og hvöttu mig til að gefa þær út.

Ég er af þeirri kynslóð að bókaútgáfa er nánast hátíðleg athöfn svo ég hló léttilega að því. Þá fæddist sú hugmynd að ég myndi lesa þetta sjálfur í hlaðvarpi, eins og ég sæti fyrir framan arineld að segja góðum vini skemmtilega sögu. Mér fannst skemmtilegt að kynnast þessari nýju tækni og þúsundir lögðu við hlustir. Viðtökurnar fóru fram úr mínum væntingum. Forlagið hafði síðan samband og vildi endilega gefa sögurnar út með nafnaskrá og myndum. Það er nú orðið að veruleika,“ segir Ólafur.

Bókin er safn lýsinga á fólki og atburðum frá hinum ýmsu löndum, og samskiptum Ólafs við hina ýmsu leiðtoga. Smásögurnar heita flestar einfaldlega eftir fornafni þess sem þar er helst fjallað um. Þarna eru til að mynda sögurnar Pútín, Bill, Hillary og Rajiv, en líka Jiang Zemin og Sitting Bull. Eitt af því sem einkennir frásagnirnar er hvernig Ólafi hefur tekist að eiga árangursrík samskipti við fólk frá öðrum menningarheimum.

Hann segir hægt að lesa sögurnar á ólíkan hátt – sem skemmtisögur, sem sögur af tilteknu fólki en líka sem lærdómsríkar frásagnir. „Það var ekki ætlun mín í upphafi að skrifa handbók um að ná árangri á alþjóðavettvangi en eftir því sem sögurnar fóru að fæðast þá sá ég að í frásögninni leyndist lærdómur í þessum efnum, fleiri en einn. Til að skapa fjölbreytni fór ég 40 ár aftur í tímann, sagði mikið frá alþjóðlegu stússi mínu þegar ég var í forystu þingmannasamtakanna og kynnum mínum af áhrifamönnum á Indlandi og í Bandaríkjunum. Ég vann mikið með Bandaríkjamönnum og mér er til efs að nokkur kjörinn fulltrúi hafi unnið jafn lengi og náið með bandarískum forystumönnum og ég hef gert, þó ýmsir telji að ég hafi nú bara verið í Kína,“ segir Ólafur kíminn.

Ólafur Ragnar Grímsson með Samson. Mynd/Valli

Lexíurnar þrjár

Hann tiltekur þrjár mikilvægar lexíur sem hafa ber í huga í samskiptum við leiðtoga á alþjóðavettvangi. „Fyrsta lexían er að þú verður að hafa eitthvað fram að færa sem skiptir viðmælandann máli. Þegar þú ert kominn á fund með leiðtoga fjölmenns ríkis, eins og til dæmis Rajiv Gandhi sem var forsætisráðherra Indlands, þá skiptir ekki höfuðmáli hvort þú ert með 300 þúsund manns á bak við þig eða rúmlega milljarð. Aðalatriðið er hvort þú hefur eitthvað fram að færa sem gagnast þeim sem þú ert að tala við. Mistökin sem flestir gera, þar á meðal ýmsir íslenskir ráðamenn, er að þegar þeir eru komnir á svona fund þá tala þeir bara um það sem þeir hafa sjálfir áhuga á. Við Íslendingar erum oft mjög sjálfhverfir og höfum gaman af að tala um okkur sjálfa. Það skilar hins vegar engum árangri á svona fundum. Þessir áhrifamenn – hvort sem það eru leiðtogar í Kína, forseti Bandaríkjanna eða forsætisráðherra Indlands – sitja fjölda funda á hverjum degi og það eru hundruð vandamála sem þeir þurfa að kljást við. Það skiptir þá máli að þú getir opnað þeim nýja sýn eða fundið með þeim nýjar leiðir.“

Annar lærdómurinn kemur við sögu í bókinni oftar en einu sinni, og hann er sá að þú yfirgefur ekki vini þína. „Í alþjóðasamskiptum byggjast flest samskipti á því að fólk er í ákveðnum stöðum í sínu heimalandi. Það er sjaldgæft að vinátta myndist en ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að margt af þessu fólki – í Bandaríkjunum, Indlandi og víðar – varð nánir vinir mínir og ég ræktaði þá vináttu. Ég gaf þá ekki upp á bátinn þó þeir misstu þingsæti sitt eða færu í stjórnarandstöðu. Ég lýsi því í bókinni þegar Sonia Gandhi, ekkja Rajiv, kom hingað til lands og embættismenn sögðu við mig að ég gæti ekki verið að hitta þetta fólk því það væri ekki í neinum embættum. Mitt svar var: Kæru embættismenn, þau eru vinir mínir. Þegar Sonia og félagar komu hingað sögðu flestir í Evrópu og Bandaríkjunum að þetta fólk ætti aldrei eftir að komast aftur í valdastóla á Indlandi og enginn nennti að hitta þau. Nokkru síðar urðu þau valdamesta fólk Indlands og voru í tíu ár, og komu Íslandi afar vel í kjölfar hrunsins.“

Upptekið áhrifafólk

Þá fjallar hann einnig um Tom Harkin, fyrrverandi öldungadeildarþingmann í Bandaríkjunum, sem Ólafur hefur haldið sambandi við síðustu fjóra áratugi. „Hann er góður vinur minn. Ég hef heimsótt hann til Washington og hann hefur komið hingað að heimsækja mig. Tom er síðan náinn vinur Joe Biden sem nú er að taka við sem forseti Bandaríkjanna. Það getur borgað sig á margan hátt að viðhalda vinatengslum á alþjóðavettvangi,“ segir hann.

Og þá er það þriðji lærdómurinn. „Ekki vera með neinar vífilengjur heldur tala skýrt og koma þér strax að kjarna málsins. Ég hef stundum gefið yngra fólki það ráð að setja sig í þær stellingar að það hafi tvær mínútur til að koma erindinu frá sér. Áhrifafólk hefur oft mjög lítinn tíma og hver fundur er kannski tíu mínútur. Bak við ráðamennina eru síðan taugaveiklaðir embættismenn sem minna á að fundurinn sé alveg að verða búinn. Þessi þrjú atriði sem ég hef talið upp eru í sjálfu sér einföld en flestir hafa ekki áttað sig á þeim og í sögunum birtast fjölmörg dæmi um hvernig þessi einföldu ráð geta gagnast vel.“

Í einni sögunni segir þú frá því að það hafi truflað Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, að þú værir sem forseti að eiga fundi með bandarískum ráðherrum og öðrum ráðamönnum, og að þeir hafi upplifað að þú værir að fara inn á þeirra verksvið. Þú breyttir þá um taktík og fórst að hitta þessa ráðherra á veitingastöðum í stað þess að bóka tíma á skrifstofunni. Hefur þú talað um þetta opinberlega áður?

„Nei, það hef ég ekki gert. Það er fjölmargt nýtt í þessum sögum sem hefur hvergi komið fram og er áhugavert ef maður les þær með stjórnmálagleraugum af því tagi sem þú notar í spurningunni. Ég bara ákvað að láta vaða, ef svo má að orði komast, af því það passaði inn í frásögnina. Í sögunum kemur fram hvað eftir annað að Bandaríkin voru sá vettvangur þar sem ég hafði hvað mest tengsl og sinni erindum með hvað áhrifaríkustum hætti.

Margir hafa skemmt sér við að segja að ég hafi fyrst og fremst haft áhuga á Kína en ástæðan fyrir því að ég sinnti Kína og Indlandi eins og raun bar vitni var að ég taldi mig vita að á 21. öldinni yrðu þessi tvö Asíuríki í forystu í heimsviðskiptunum og þá væri mikilvægt fyrir litla þjóð eins og Íslendinga að ná góðum tengslum áður en allir vildu þá Lilju kveðið hafa. Með fullri virðingu fyrir fyrirrennurum mínum þá hafði enginn áður tekið við forsetaembættinu með jafn víðtæk alþjóðleg tengsl og ég kom með til Bessastaða og ég var staðráðinn í að nýta þau Íslandi til hagsbóta. Íslenskir ráðamenn þekktu ekki þennan veruleika að það væri kominn forseti á vettvang sem gæti sjálfur útvegað sér fundi í Hvíta húsinu.

Ég segi frá því þegar Tom Harkin hjálpaði mér að koma á fundi með Bill Clinton og allir í íslensku utanríkisþjónustunni göptu því þetta hefði verið svo stórt verkefni fyrir þá. Það fór kannski pínulítið í taugarnar á þeim sem sátu hér heima að allt í einu gat forsetinn farið til Washington og skipulagt fundi án þess að ráðherrar eða ráðuneyti kæmu við sögu. Einkum var það metnaðarmál fyrir forsætisráðherrann að hann væri aðalmaðurinn í Washington hvað Ísland snerti.

Þegar þetta var búið að vera í gangi í ákveðinn tíma fór að bera á því að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra voru orðnir létt pirraðir á þessum umsvifum forsetans og fannst hann kominn út fyrir sitt verksvið. Ég var alls ekki sammála því en þeim fannst ekki ganga að forsetinn væri að eiga fundi með fulltrúum framkvæmdavaldsins og ef ég héldi því áfram þá myndi það hafa afleiðingar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að togstreita á milli forseta og einstakra ráðherra væri ekki vænleg útflutningsvara og þjónaði ekki hagsmunum Íslands. Ég fann þá bara leiðir til að komast fram hjá þessari prótókollkröfu og hitti þá í morgunmat eða í kaffi, eins og ég lýsi í sögunni. Þeim fannst gott að komast út af skrifstofunni og fundirnir gerðu áfram sitt gagn en ekki var hægt að gera formlegar athugasemdir við þá.“

Ólafur Ragnar Grímsson. Mynd/Valli

Hrifinn af Kamölu Harris

Ólafur átti mikil og góð samskipti við Clintonhjónin, og sömuleiðis varaforsetann Al Gore. „Þau eru einstakt þríeyki og eru öll enn mjög áhrifarík þó langt sé síðan þau yfirgáfu Hvíta húsið. Sögur í bókinni varpa ljósi á að hæfileikar Bill og Hillary eru í sérflokki. Á vissan hátt má segja að kjör Joe Biden opni leiðir fyrir þá stefnu sem þríeykið þróaði í Demókrataflokknum fyrir tæpum þrjátíu árum. Þetta sést ekki síst á því að Biden hefur skipað John Kerry sem alþjóðlegan fulltrúa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ég er þeirrar skoðunar að það væri mun meiri óvissa um hvað væri fram undan ef sá sem tekur við af Trump hefði ekki verið skólaður í þessu skeiði í sögu Bandaríkjanna.“

Hann telur að áhrifa Trumps komi ekki til með að gæta mikið á alþjóðavettvangi eftir að hann hættir sem forseti en meira innan Bandaríkjanna sjálfra. „Ég hef haldið því fram eftir að Trump var kosinn að hann sé ekki sjálfur vandamálið heldur hafi hann nýtt sér djúpstæð vandamál í bandarísku samfélagi varðandi efnahag, litarhátt og trúmál. Kjör hans endurspeglar hversu klofin Bandaríkin eru og núna þarf þjóðin að glíma við þennan klofning. Ég tel að arfleifð Trumps verði áframhaldandi ágreiningur innan Bandaríkjanna og að aðrar þjóðir og ríki haldi áfram að finna sína framtíð óháð því sem gerist í hinu daglega leikriti í Washington.“

Þá fer Ólafur fögrum orðum um Kamölu Harris, verðandi varaforseta. „Hún er greinilega mjög hæfileikarík. Kjör hennar er staðfesting á að Bandaríkin eru enn land þar sem dóttir innflytjenda, dóttir fátækra námsmanna sem koma frá ólíkum löndum til að stunda þar nám, getur í eigin krafti vegna eigin verðleika orðið dómsmálaráðherra í Kaliforníu, öldungadeildarþingmaður og nú varaforseti Bandaríkjanna. Hún er persónugervingur þess að bandaríski draumur innflytjandans getur enn ræst.“

Með skrifstofuna í iPadnum

Ólafur hefur alltaf verið mikið á ferðalögum en vegna kórónufaraldursins eru rúm 40 ár síðan hann hefur verið jafn lengi samfleytt á Íslandi, og honum líkar það hreint ágætlega. „Íslenskar rætur mínar eru mjög sterkar og ég uni mér hvergi betur en í íslenskri náttúru, í íslensku samfélagi. Ég hef notið þess að búa á Seltjarnarnesi með hafið og Esjuna fyrir framan mig, á Bessastöðum með alla þá fegurð náttúrunnar í kring og síðan nú í Mosfellsbænum þar sem Varmá rennur fram hjá húsinu okkar og við erum umlukin háum trjám. Í raun er ekki til betra umhverfi fyrir skriftir og ég get hér farið í göngu um fagurt umhverfi sem er jafn heillandi allt árið um hring. Ég er í raun feginn þeirri hvíld sem ég fékk frá ferðalögum við þennan faraldur og mun breyta taktinum í mínu lífi í framhaldinu.“

Það eru margir áratugir síðan Ólafur byrjaði að fara í daglegar gönguferðir. „Ég tamdi mér þennan lífsstíl þegar ég bjó á Seltjarnarnesi. Ég byrja hvern dag á æfingum. Upphaflega fór ég síðan að hlaupa en hlaupin hafa breyst í kraftgöngur. Mörgum á Seltjarnarnesinu fannst skrýtið að sjá mig í myrkrinu á veturna birtast milli húsa eða á Valhúsahæðinni, svo ég tali nú ekki um þegar ég fór til Bessastaða og íbúar fóru allt í einu að sjá einhvern mann við Bessastaði í myrkrinu og veltu fyrir sér hvaða flækingur þetta væri í morgunsárið. Ég fer í göngu alla morgna, allt árið um kring. Það geri ég líka á ferðalögum, á nýársdag og á jóladag. Ég tek einn og hálfan tíma í æfingar og kraftgöngu, og náttúran hér í Mosfellsbænum hentar einstaklega vel til þess.“

Eftir útivistina tekur venjulega við fimm til sex tíma vinna, og síðdegis les Ólafur mikið og hefur samband við vini og vandamenn. „Menn spyrja oft hvort ég sé með skrifstofu hér heima en skrifstofan er bara í iPadnum mínum. Tæknin gerir mér kleift að lifa áfram athafnasömu lífi hvar sem ég er í veröldinni.“

Ólafur Ragnar Grímsson með Samson. Mynd/Valli

Gríðarleg fagnaðarlæti

Og oftar en ekki fær hundurinn Samson að fara með í gönguferðirnar. Eins og alþjóð veit var Samson klónaður úr erfðaefni hundsins Sáms sem hélt á vit feðra sinna í ársbyrjun 2019. Samson kom í heiminn í Bandaríkjunum og þau fengu hann þegar hann var tveggja mánaða en hann varð að ná ákveðnum aldri til að mega fara úr landi og til þeirra Ólafs og Dorritar.

„Þegar við fengum Sám á sínum tíma var hann árs gamall og við höfðum því aldrei haft hvolp saman. Það var mjög skemmtilegt en líka áhugavert að fylgjast með honum út frá vísindalegu sjónarmiði, að sjá hvað Samson er líkur Sámi, ekki bara í útliti heldur líka í lyndi og háttum.“

Sjónvarpsfréttamenn RÚV voru á staðnum þegar Samson losnaði úr einangrunarstöðinni í júlí og hitti þau hjónin aftur. Fagnaðarfundirnir voru þvílíkir og datt Dorrit um koll þegar Samson flaðraði upp um hana, vart mátti sjá hvort var glaðara. Ólafur segir hins vegar enn merkilegra hvað Samson var glaður að hitta Dorrit í fyrsta skipti.

„Við tókum á móti honum á flugstöðinni í Aspen. Hann kemur í fangið á Dorrit og það linnir ekki fagnaðarlátunum. Hann var þá bara tveggja mánaða og hafði aldrei hitt Dorrit áður. Þetta vekur upp spurningu um kjarnann í erfðavísindum – erfist minnið? Flestir vísindamenn segja nei, en hvernig stendur þá á því að þessi litli hvolpur fagnaði svona ógurlega þessari ókunnugu konu sem var með hann í fanginu á flugstöðinni í Aspen? Móttökurnar sem Dorrit fékk voru svipaðar þegar hann var kominn hingað en þá hafði hann auðvitað hitt hana áður.“

Óhefðbundin jól

Jólamánuðurinn er genginn í garð en hann, eins og allt annað, ber keim af kórónuveirunni. Ólafur reiknar með að jólahaldið verði með afar breyttu sniði hjá fjölskyldunni og vonar að þannig verði það hjá flestum.

„Ég segi vonandi því ég held að það sé nauðsynlegt að þjóðin breyti öll sínum jólavenjum. Við í fjölskyldunni höfum haft það sem sið að hittast öll; dætur mínar, dætur Guðrúnar Katrínar og börnin þeirra sem er nokkuð fjölmenn sveit. Það verður ekkert slíkt boð um þessar hátíðir í ár. Það er ekki einu sinni víst að þær systur hittist allar um jólin. Þó það sé kannski sérkennilegt að segja það þá vona ég að hvorki hjá minni fjölskyldu né öðrum verði hefðbundin jólaboð. Ég held að það sé einfaldlega hinn harði veruleiki þessa faraldurs að við verðum að finna okkur nýjar leiðir til að halda jól og bíða með samkomur í þeim stíl þar til næstu jól. Það verður ekkert hefðbundið á næstunni, hvorki jól né áramót. Við verðum að hafa aga og sannfæringu til að breyta til og gleðjast án þess að stofna heilsu og lífi í hættu, því það er það sem þetta snýst um – lífið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: VG út og Samfylking inn eða hrein vinstri stjórn nema miðjuflokkarnir bæti stöðu sína

Þorsteinn Pálsson: VG út og Samfylking inn eða hrein vinstri stjórn nema miðjuflokkarnir bæti stöðu sína
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Straumfall til vinstri í sjö ár

Þorsteinn Pálsson skrifar: Straumfall til vinstri í sjö ár
Eyjan
Fyrir 1 viku

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi