Í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun fjallar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um transbörn og intersex börn. Sigmundur virðist vera á þeirri skoðun að fólk sem ekki er sjálfráða ætti ekki að geta farið í kynleiðréttingu. í pistli sínum velti Sigmundur fyrir sér hversvegna börn skuli spyrja sig út í eigin kynvitund og nefnir „áróður“ í barnaefni frá BBC sem mögulega ástæðu.
Máli sínu til stuðnings vísar Sigmundur meðal annars til LGB Alliance, samtaka sem gjarnan eru talin transfóbísk.
„Þessi hópur er í raun settur upp eingöngu til að beita sér gegn réttindum transfólks, þó svo að heitið og einhverjar stefnur þeirra segi að það sé verið að beita sér fyrir réttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Öll þeirra starfsemi snýst um að beita sér gegn réttindum transfólks.“sagði Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, við Stundina fyrr á þessu ári.
Pistill Sigmundar ber heitið Það sem ekki má ræða, en að hans mati hefur lítil sem engin umræða varðandi þessi málefni átt sér stað hér á landi. Hann heldur því fram að ríkisstjórnin taki ekki mark á vísindum né lækningum, heldur sé um að ræða „blinda pólitík“.
„Málefni transfólks hafa vakið mikla umræðu í nágrannalöndum okkar. Sú umræða hefur oft orðið öfgafull og margir mátt þola mikla ágjöf fyrir að spyrja gagnrýninna spurninga. Margt transfólk hefur lýst eigin reynslu og beitt sér fyrir skynsamlegri nálgun en oft mátt þola árásir, ekki hvað síst frá fólki sem hefur nýtt sér málstaðinn til að styðja við eigin hugmyndafræði fremur en að leita bestu lausnanna.
Hér á landi er umræða um kosti og galla mismunandi aðferða hins vegar lítil sem engin. Á þessu sviði hefur ríkisstjórn Íslands keyrt í gegn verulegar breytingar á lögum nánast án umræðu í samfélaginu. Eftir helgi hyggst stjórnin lögfesta þrjú frumvörp til viðbótar. Sem fyrr er gagnrýnin umræða talin til óþurftar þrátt fyrir að málin varði grundvallarbreytingar á samfélaginu og vernd barna, lífs og heilsu.
Sigmundur segir að í „ímyndarstjórnmálum“ samtímans séu mál sem þessi þögguð niður. Hann leggur sérstaka áherslu á Bretland í pistli sínum, og bendir á „áróður í barnasjónvarpi BBC“ sem mögulega skýringu á því að börn spyrji sig út í eigin kynvitund.
„Ýmissa skýringa hefur verið leitað. Allt frá skólakynningum… að áróðri í barnasjónvarpi BBC.“
„Þeir starfsmenn heilbrigðiskerfisins sem hafa gagnrýnt þróunina hafa mátt þola fordæmingu aktívista og jafnvel fjölmiðla. En þeir eru þó ekki einir um að lenda í slíku eftir tilraun til að ræða þessi mál. Fleira er undir í þessari umræðu en börn með kynáttunarvanda.“
Þá fjallar Sigmundur um Transútilokandi femínista, eða „terfur“ eins og hann kallar þau. Þar er átt við femínista sem setja sig upp á móti réttindum trans fólks. Hann nefnir þar sérstaklega á nafn J.K. Rowling, höfund bókanna um Harry Potter, sem hefur verið harðlega gagnrýndi fyrir orðræðu sína gagnvart trans fólki.
„Margar konur, ekki hvað síst femínistar, hafa mátt þola hreinar árásir fyrir að spyrja spurninga um þróunina og setja hana í samhengi við réttindi kvenna. Slíkar konur eru uppnefndar terfur (e. TERF – Trans Exclusionary Radical Feminist). Meðal frægustu fórnarlamba slíkra árása er breski rithöfundurinn J.K. Rowling sem leyfði sér að minna á að til væri orð yfir þann hóp fólks sem hefur tíðir og gaf til kynna að það orð gæti verið „kona“. Rowling er í aðstöðu til að standa af sér þá miklu herferð sem rekin hefur verið gegn henni en aðrar konur hafa misst vinnuna og mátt þola útskúfun fyrir að ræða þessi mál.“