„Bandaríkin kaupa það sem þau selja. Eftir mestu kosningaþátttöku í heila öld fengu þau 81 milljón atkvæða og enn er talið. Þetta er mesti atkvæðafjöldi sögunnar og sjö milljónum fleiri atkvæði en Trump fékk,“ segir einnig. Tímaritið bendir einnig á að Biden taki heimsfaraldur kórónuveirunnar „mjög, mjög alvarlega“.
Tímaritið segir að Biden hafi skuldbundið sig gagnvart Harris eins og Barack Obama skuldbatt sig gagnvart Biden þegar hann var varaforseti í embættistíð Obama. Varaforsetinn sé alltaf sá síðasti til að yfirgefa fundarherbergin til að hann, og fljótlega hún, geti verið með í ráðum um allar stórar ákvarðanir. Biden og Harris eiga í daglegum samskiptum, þau tala saman í síma og/eða senda sms og Harris er með í ráðum hvað varðar val á ráðherrum ríkisstjórnar Biden segir Time.
Val Time á manni eða konu ársins vekur alltaf mikla athygli og þykir mikill heiður að verða fyrir valinu. Á síðasta ári var það sænski umhverfisverndarsinninn Greta Thunberg sem varð fyrir valinu. 2018 voru það fangelsaðir eða myrtir fréttamenn sem höfðu lagt lífið að veði í leitinni að sannleikanum. 2017 var það MeToo-hreyfingin sem varð fyrir valinu og 2016 var það Donald Trump. 2015 varð Angela Merkel fyrir valinu og 2014 voru það þeir sem börðust gegn útbreiðslu ebólu.