„Björn Bjarnason hefur nú í nokkrum Morgunblaðsgreinum iðkað ákafa þrætubókarlist við undirritaða vegna afskipta föður hans af orðstír Halldórs Laxness sem frá er sagt í bók minni Spegill fyrir skuggabaldur . Hefur hann lagt nokkrar lykkjur á leið sína og notið liðstyrks leiðarahöfundar Morgunblaðsins og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.“
Svona hefst pistill sem Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag með yfirskriftinni Arfleifðin sem ekki má játa. „Björn hengir sig í rangtúlkun á því sem sagt hefur verið og mótmælir svo eigin ályktun, sem er sú að faðir hans Bjarni Benediktsson „hafi árið 1948 stöðvað útgáfu bóka Laxness“ eins og Björn orðar brigslin sjálfur. Þessu hefur þó enginn haldið fram, svo Björn er að rífast við sjálfan sig um þetta atriði,“ segir Ólína.
Ólína segir að samkvæmt frumheimildum verði „ekki annað ráðið en að athugun á tekjum og skattskilum Halldórs Laxness hafi fyrst og fremst haft þann tilgang að laska orðspor skáldsins vegna ætlaðra tengsla þess við kommúnista,“ eins og segir í bók hennar (nánar tiltekið á síðu 154). „Fræðimönnum ber þess vegna saman um að æruhnekkir var óumdeilanlegt markmið þeirra Bjarna Benediktssonar og William Trimble, sendifulltrúa Bandaríkjanna, þegar þeir véluðu um rannsókn á skattskilum skáldsins í Bandaríkjunum.“
Trimble sagði í skeyti að orðstír Laxness myndi skaðast varanlega ef því er komið til skila að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. „Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk,“ segir Ólína að Trimble hafi sagt í skeytinu.
„Inn í þessa rannsókn blandaðist meira að segja yfirmaður FBI, Edgar Hoover, sem beitti sér af hörku gegn róttækum höfundum á þessum árum og hikaði ekki við að hafa afskipti af útgáfumálum þeirra.“
„Menn sem komnir eru úr takt við tímann“
Ólína segir frumkvæði og þáttöku Bjarna Benediktssonar í þessu máli varpa ljósi á pólitíska arfleifð Sjálfstæðisflokksins. „Sem Birni Bjarnasyni og félögum svíður að opinberuð sé. Þar er um að ræða viðhorf og vinnubrögð sem – eins og bók mín greinir frá – valda samfélagslegum skaða. Nýjasta dæmið er pólitísk misbeiting ráðherravalds við dómaraskipan í Landsrétt – brot sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur harðlega átalið í nýföllnum dómi,“ segir Ólína.
„Spegill fyrir skuggabaldur fjallar um valdbeitingu af fyrrgreindum toga – fyrirgreiðslupólitík og aðra misbeitingu sem grefur undan góðri stjórnskipan, lýðréttindum og mannhelgi. Það er arfleifðin sem Björn Bjarnason og fylginautar horfast nú í augu við. Sú arfleifð er málstaður manna sem komnir eru úr takt við tímann – manna með þrotið erindi sem hafa lifað sjálfa sig.“