Yfir kvöldverðinum fóru líflegar og opinskáar umræður fram og lauk þeim seint í gærkvöldi. Johnson og Leyen ákváðu að gefa samningstilraununum tíma fram á sunnudag, að öðrum kosti verður ekki samið og þá verða engir samningar um tollamál og viðskipti Bretlands og ESB í gildi.
Margir höfðu vonast til að fundur leiðtoganna myndi skila góðum árangri og höggva á þann hnút sem er á samningaviðræðunum. Segja má að niðurstaða fundarins í gærkvöldi hafi verið að aðilarnir eru sammála um að mikið beri á milli og að þeir eru frekar svartsýnir á að samningar náist en ákváðu samt að gefa sér tíma fram á sunnudag til að reyna að ná saman.
En þrátt fyrir að svartsýnistónn hafi verið uppi eftir fundinn og hættunni á að allt endi þetta án samnings þá sjá báðir aðilar einhverja möguleika til að ná saman að mati Tom Newton-Dunn, stjórnmálaskýranda Times Radio, í gærkvöldi. „Annars er þýðingarlaust að ræða saman,“ sagði hann.
Áður en Johnson hélt til Brussel sagði hann á þinginu að ESB hefði lagt fram kröfur sem enginn breskur forsætisráðherra gæti samþykkt. Þetta eru til dæmis ákvæði um samkeppnisákvæði og um réttindi launþega og ríkisstyrki. Þá eru fiskveiðar heitt ágreiningsmál og ekki hefur náðst samkomulag um hver má veiða hvar og hversu mikið. Einnig hefur ekki náðst saman um hver á að skera úr um deilur sem kunna að koma upp varðandi samninginn og hvernig samningsaðilum gengur að fylgja honum.