Í frumvarpsdrögum að nýjum sóttvarnalögum er ákvæði sem heimilar stjórnvöldum að beita útgöngubanni. Slík heimild er ekki til staðar í núverandi lögum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, reifar þetta mál í nýjum pistli á Vísir.is.
Þorgerður segir að útgöngubanni megi aldrei beita án aðkomu Alþingis. Hún undrast hvað málið hefur farið hindrunarlaust í gegnum stjórnarflokkana. Telur hún að breyta þurfi tillögunni á þann hátt að tryggt sé að Alþingi hafi ávallt aðkomu að beitingu útgöngubanns:
„Mér hefur þótt það sérstakt að frumvarp ríkisstjórnarinnar sem inniheldur útgöngubann og er nýlunda í íslenskri stjórnsýslu, hafi farið nokkuð óáreitt í gegnum stjórnarflokkanna. Þrátt fyrir alla frelsispostulanna. Það er mitt mat að þessari tillögu þarf að breyta. Ef sérfræðingar telja slíkt ákvæði um útgöngubann nauðsynlegt í lögum, ákvæði sem er stórkostlegt inngrip inn í einstaklingsfrelsið, þá verður að tryggja að því verði aldrei beitt án aðkomu Alþingis. Aldrei. Löggjafarþingið hefur sýnt að þegar miklir hagsmunir eru undir er það fljótt til. Nægir að benda á neyðarlögin í því efni. Engin ástæða er að gera annað en miklar kröfur til stjórnvalda ef beita á útgöngubanni. Annað væri ógn við samfélagsgerðina, lýðræði okkar og frelsi.“
Þorgerður segir enn fremur að nú sé ekki besti tíminn til að setja slíkt ákvæði í lög, í miðjum faraldri þegar varnarmúr persónufrelsis sé hvað veikastur fyrir.