Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Dagur hafi sagt að stórauknar fjárfestingar borgarinnar skeri sig úr í samanburði við áform nágrannasveitarfélaganna. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi skuldasöfnun borgarinnar í góðærinu og sagði að hún gerði verkefni mun erfiðara en annars.
Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 11,3 milljarða halla á rekstri A-hluta borgarinnar. Rekstrartekjurnar verða 134 milljarðar, sem er 8 milljörðum hærra en í spá sem var gerð á þessu ári, og útgjöldin hækka um 10 milljarða og verða rúmlega 137 milljarðar. Reiknað er með að rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar verði neikvæð um 2,7 milljarða.
Reiknað er með að ný langtímalán upp á 51,8 milljarða verði tekin á næsta ári og að langtímaskuldir samstæðunnar verði 304 milljarðar og hækki um 35 milljarða á milli ára.
Fram kemur í áætluninni að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi mikil áhrif á hana en Dagur B. Eggertsson sagði að mikilvægt sé að borgin pakki ekki í vörn núna heldur blási til sóknar og fari í umfangsmiklar fjárfestingar.