Aðalheiður bendir á að allir valdhafar hafi brugðist. Dómsmálaráðherra, sem var Sigríður Á. Andersen, hafi sýnt reglunum, sem átti að fylgja við skipun dómara algert skeytingarleysi sem hafi haft þær afleiðingar að borgararnir gátu ekki treyst því af hvaða hvötum hún tók ákvarðanir í málinu. Alþingi brást einnig segir hún með því að fara í bága við eigin löggjöf sem var ætlað að tryggja vandað ferli og lágmarka hættu á að flokkshagsmunir réðu för. Hún segir að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fái einnig sinn skerf í dómi Mannréttindadómstólsins því hann hafi blessað hina ólögmætu málsmeðferð við skipun dómara með því að skrifa undir skipunarbréf Arnfríðar Einarsdóttur.
„Það er sorglegt að sitjandi dómsmálaráðherra sé ekki ánægðari með þessa niðurstöðu en raun ber vitni. Vonbrigði hennar með niðurstöðuna hljóta að vera í andstöðu við viðhorf þorra Íslendinga, sem þvert á móti upplifa létti við að fá dómsorð frá virtum fjölskipuðum dómstól um það sem þeir vissu allan tímann: Það er og hefur alltaf verið eitthvað bogið við hvernig dómarar eru skipaðir á Íslandi,“ segir Aðalheiður og bætir við: „Loksins fær sá flokkur sem stýrt hefur dómsmálaráðuneytinu, nánast óslitið í lýðveldissögunni, ítarlega leiðsögn um hvernig á að fara að lögum þegar dómarar eru skipaðir og hvers vegna má alls ekki fara í bága við slík lög. Sú leiðsögn ætti að vera fagnaðarefni fyrir ráðherra og það eru vonbrigði að hún líti ekki þannig á málið, ekki síst í ljósi þess að hún er, enn sem komið er, saklaus af vitleysunni.“
Hún víkur síðan að Sigríði Á. Andersen og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð: „Það var Sigríður Á. Andersen sem setti alla vitleysuna af stað af umdeildum ástæðum. Henni var gert að víkja. Við tók Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem hélt uppteknum hætti og tók málið í eigið fang í stað þess að láta staðar numið og leyfa íslenskum borgurum að eiga dómsorð um að fara skuli að lögum í landinu. Þórdís Kolbrún kaus að berjast fyrir fráleitum málstað og halda með því dómskerfinu í spennitreyju í 18 mánuði, án þess að geta nokkru sinni útskýrt hvaða brýnu hagsmuni land og þjóð hefðu af því að fá þeirri afstöðu hrundið að fara þyrfti að landslögum við skipun dómara. Hún tapaði en þjóðin vann, 17-0.“
Hún endar grein sína síðan á þessum orðum: „Þegar öllu er á botninn hvolft virðast engir hagsmunir hafa legið að baki því að óska eftir endurskoðun dómsins nema hagsmunir Sjálfstæðisflokksins og þeirra dómara sem ráðherrar þess flokks hafa skipað með ólögmætum hætti.“