Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að framlengja gildandi reglugerð um takmarkanir á samkomum og skólastarfi til 9. desember. Því eru engar breytingar væntanlegar fyrr en í fyrsta lagi eftir rúma viku.
Þetta er í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis í ljósi þess hvernig faraldurinn hefur þróast undanfarna viku.
Þórólfur hafði búist við að hægt væri að hefja varfærnar tilslakanir strax á morgun, en svo kom bakslag í faraldurinn og þær hugmyndir voru fljótt teknar af borðinu.
„Fram kemur hjá sóttvarnarlækni að undanfarið hafi orðið breytingar á faraldrinum. Upp hafi komið hópsýkingar og smitum fjölgað. Þá virðist fjöldi þeirra sem greinast utan sóttkvíar stefna í línulegan vöxt og hugsanlegan veldisvöxt segir sóttvarnarlæknir,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Hins vegar kemur einnig fram að endurskoða eigi sóttvarnarráðstafanir þegar í stað og verður meðal annars tekið til skoðunar hvort rétt sé að gera tilslakanir á landsbyggðinni frekar en á höfuðborgarsvæðinu þar sem flest smit eru að greinast.