fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Gamla fólkið á valdastólum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 22. nóvember 2020 17:00

Ólafur Ragnar Grímsson er árinu yngri en Joe Biden en hér er hann með George Bush eldri, fyrrv. Bandaríkjaforseta, sem lést fyrir tveimur árum, 94 ára að aldri. MYND/STEFÁN

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir halda starfsþreki fram yfir sjötugt og því eðlilegt að fjölgi í hópi aldraðra ráðamanna. Joe Biden verður elstur Bandaríkjaforseta. Fáir öldungar í stjórnmálum hér.

Þegar Joseph Robinette Biden yngri tekur við embætti Bandaríkjaforseta í byrjun næsta mánaðar verður hann langelstur allra til að sverja embættiseiðinn, eða 78 ára. Metið átti fráfarandi forseti, hinn afar litríki Donald Trump, sem var 70 ára á innsetningardaginn fyrir tæpum fjórum árum.

Ronald Reagan (forseti 1981– 1989) er enn sá sem setið hefur elstur á stóli Bandaríkjaforseta. Hann vantaði ekki marga daga upp á 78 ára afmælið er hann lét af embætti – var sem sagt yngri en Biden verður í janúar á ári komanda. George Bush eldri (forseti 1989–1993) var 94 ára er hann lést árið 2018 og Jimmy Carter (forseti 1977–1981) varð 96 ára 1. október síðastliðinn en enginn fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefur náð svo háum aldri. Rosalynn kona hans er enn á lífi og ef þeim endist aldur munu þau fagna 75 ára brúðkaupsafmæli á næsta ári.

Gömlu mennirnir

Meðalaldur hefur hækkað hratt á síðustu áratugum og margir halda óskertu starfsþreki langt fram á efri ár. Sagan geymir þó ótal dæmi um afreksverk öldunga. Sófókles mun hafa verið níræður er hann ritaði Elektru, Michelangelo teiknaði Sankti Péturskirkjuna í Róm sjötugur og Goethe lauk við Faust 82 ára.

En ef við víkjum að stjórnmálamönnunum þá þótti William Gladstone háaldraður er hann lét af embætti forsætisráðherra Breta árið 1894 orðinn 84 ára og Winston Churchill stóð á áttræðu er hann yfirgaf Downingstræti 10 í síðasta sinn. Sá síðarnefndi var fæddur 1874, tveimur árum eldri en Konrad Adenauer, kanslari VesturÞýskalands, sem lét af því embætti 1963 orðinn 87 ára. Hann sat þó áfram á þinginu í Bonn, allt fram í andlátið fjórum árum síðar, orðinn 91 árs að aldri.

Golda Meir á Landspítalanum

Hér hafa bara verið nefndir karlleiðtogar en Elísabet II. Englandsdrottning er orðin 94 ára og hefur setið „á valda stóli“ í 68 ár og ef til vill tekst henni að slá heimsmet Loðvíks 14. Frakkakonungs sem hafði ríkt sem konungur í 72 ár er hann andaðist 1715. En kannski er sanngjarnari samanburðurinn við lýðræðislega kjörna leiðtoga. Golda Meir, forsætisráðherra Ísraels, var 76 ára þegar hún lét af embætti 1974. Golda Meir kom hingað til lands í opinbera heimsókn 1961, þá utanríkisráðherra Ísraels. Hún heimsótti meðal annars Pétur Ottesen, fyrrverandi alþingismann, á Landspítalann þar sem hann hafði legið í fimm vikur vegna fótbrots. Pétur hafði þá farið nokkru fyrr í ferðalag til Ísraels og skrifað greinar um heimsóknina í Morgunblaðið.

Golda Meir tók innilega í hönd Péturs þar sem hann lá á sjúkrabeðnum og sagði: „Þér eigið fallegt land, hérna.“ – Já, en mig dreymir nú oft heim og nú er aðalannatíminn að hefjast. Mér líður illa að komast ekki heim til búsýslunnar.“ Golda Meir svaraði þá: „Ég er ekkert hissa á því. Bændur ættu helst aldrei að liggja í rúminu. Ég hef sjálf verið bóndi og veit hvað það er.“

Ellert elstur á þingi

Pétur Ottesen lét af þingmennsku sjötugur að aldri árið 1959 og hafði þá setið samfellt á Alþingi fyrir Borgfirðinga í 43 ár. Ari Trausti Guðmundsson er nú elstur alþingismanna, 72 ára. Sighvatur Árnason, bóndi í Eyvindarholti og þingmaður Rangæinga, var 78 ára þegar hann sat seinast á Alþingi, en það var 1902. Pétur Pétursson biskup var sömuleiðis 78 ára þegar hann sat seinast á þingi, en hann var konungkjörinn alþingismaður til ársins 1887.

Ellert B. Schram tók sæti sem varamaður á Alþingi 2018 þá orðinn 79 ára. Enginn annar hefur setið svo gamall á Alþingi, en Sighvatur í Eyvindarholti var tæplega 79 ára þegar þingmennsku hans lauk.

Ráðherrar og forsetar

Ef litið er til ráðherra þá var Ólafur Thors 71 árs er hann lét af embætti forsætisráðherra 1963 en Gunnar Thoroddsen var 72 ára þegar hann yfirgaf Stjórnarráðið tuttugu árum síðar. Vilhjálmur Hjálmarsson, menntamálaráðherra 1974–1978, er sá ráðherra sem lengst hefur lifað, varð 99 ára, og annar framsóknarráðherra, Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra 1981– 1983, hefur náð háum aldri. Hann er nú 94 ára.

Hvað forsetana áhrærir var Ásgeir Ásgeirsson á forsetastóli til 74 ára aldurs og Ólafur Ragnar Grímsson yfirgaf Bessastaði 73 ára. Ólafur Ragnar hefur hvergi nærri lagt árar í bát eftir að hann lét af embætti enda enn með mikið starfsþrek – og svo má minna á að hann er árinu yngri en Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorgerður og Jón gera grín að dramanu í Samfylkingunni

Þorgerður og Jón gera grín að dramanu í Samfylkingunni
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?