Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ýmsar aðrar breytingar á skattstofni og skattlagningu fjármagnstekna sé að finna í frumvarpinu. Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun skattstofns fjármagnstekjuskatts með tilliti til verðbólgu. Vísað er til ríkisstjórnarsáttmálans þar sem fram kemur að samhliða hækkun fjármagnstekjuskatts í 22% 2018 verði skattstofninn tekinn til endurskoðunar.
Í frumvarpsdrögunum kemur fram að fyrirhugað sé að hækka frítekjumarkið í 300 þúsund við álagningu næsta árs en um leið verði sú breyting gerð að frítekjumarkið nái einnig til tekna af arði og söluhagnaði félaga sem eru skráð á markað.
Í frumvarpinu er einnig kveðið á um breytingar á skattlagningu söluhagnaðar af frístundahúsnæði og íbúðarhúsnæði. Einnig eru lagðar til breytingar á reglum um frádrátt á móti innleystum gengishagnaði. Í heildina er áætlað að þessar breytingar hafi í för með sér að tekjur ríkissjóðs lækki um 1,6 til 2 milljarða á ári.