„Með komu hans hófst nótt hinna löngu hnífa. Á þeim 8-10 árum sem hann hefur verið í stjórnunarstöðu hjá Reykjavíkurborg hefur hann rekið, látið reka eða flæmt úr störfum um það bil 23 manns, oft fólk með langan starfsaldur. Hér er bara um að ræða fólk úr upplýsingatækniþjónustu borgarinnar,“ segir einn af þeim sem sagt hefur verið hjá upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar á árinu.
Alls sjö manns á þessu sviði hefur verið sagt upp á árinu en það heyrir undir Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar. Sviðsstjóri er Óskar J. Sandholt. Umræddur maður segir hann hafa þann vana að reka tæknimenn með langan starfsaldur og lífaldur úr starfi og ráða inn yngra fólk. Í uppsögnunum á þessu ári eru dæmi um fólk með um 20 ára starfsreynslu.
Maðurinn segir svör sem hann fékk er hann kallaði eftir rökstuðningi fyrir uppsögn sinni hafa verið ófullnægjandi. Hann hafi aldrei fengið svar fyrir þeirri spurningu hver væri hagræðingin af því að reka reynslumikið tölvuþjónustufólk og ráða inn verktaka í staðinn. Þá segir hann að á sama tíma og þessar uppsagnir ríði yfir, í miðri COVID-kreppunni, sé auglýst eftir starfsfólki í bakvinnslu hjá upplýsingatækniþjónustunni. Þó hafi sumir hinna brottreknu sóst eftir starfi í bakvinnslu.
Óskar J. Sandholt hefur svarað skriflegum spurningum DV um málið. Aðspurður um fjölda uppsagna á hans starfstíma segir hann:
„Það er erfitt fyrir mig að staðfesta þessa tölu með vissu en á hverju ári er alltaf einhver velta á starfsfólki eins og eðlilegt er í starfsemi sem þróast hratt. Á sviðinu starfar að jafnaði á annað hundrað mjög hæfs starfsfólks sem heldur mikilvægri þjónustu og rekstri gangandi með hagsmuni íbúa og fyrirtækja í borginni að leiðarljósi.“
Óskar segir að sjö manns hafi verið sagt upp á árinu vegna skipulagsbreytinga á sviðinu en hluta verkefna verður útvistað.
Aðspurður hvort hann hafi tilhneigingu til að segja upp reynslumiklu starfsfólki svarar Óskar:
„Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar leggur mikið upp úr því að hafa hæfileikaríkan og fjölbreyttan hóp starfsfólks í vinnu. Í engum tilfellum er litið til aldurs eða annarra ómálefnalegra þátta þegar kemur að starfsmannamálum og samsetning starfsfólks sviðsins ber vott um það. Aldur og reynsla getur verið afar jákvæður þáttur í mati á því hvort starfsfólk sé hæft til að gegna einstaka störfum. Um leið er hæft starfsfólk lykillinn að velgengni í allri starfsemi sviðsins. Skipulagsbreytingar eins og átt hafa sér stað nokkrum sinnum á umliðnum árum og þ.m.t. á þessu ári geta óhjákvæmilega haft í för með sér mannabreytingar.“
Varðandi óánægju með að verið sé að auglýsa eftir starfsfólki í bakvinnslu á sama tíma og uppsagnir eiga sér stað segir Óskar:
„Störf á sviðinu eru auglýst í samræmi við reglur um auglýsingar opinberra starfa og allir geta sótt um þau.“