„Formaður Viðreisnar leitar sífellt nýrra leiða til að draga flokkinn niður í ómerkilegan popúlisma og virðist telja að nú þegar innan við ár er í kosningar þurfi smáflokkurinn með slæma málstaðinn að herða þennan róður.“
Svona hefst ritstjórnargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þessi „nýja leið“ sem ritstjórn Morgunblaðsins talar um er fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Fyrirspurnin fjallaði um fóstureyðingar í Póllandi en Morgunblaðið segir fyrirspurnina hafa verið „ómerkilega.“
„Þorgerður stillti spurningunni þannig upp að hún hefði áhyggjur af konum í Póllandi vegna lagasetningar þar í landi um fóstureyðingar, en tilgangur fyrirspurnarinnar var svo gagnsæ, augljós og misheppnuð árás á Sjálfstæðisflokkinn að annað eins hefur ekki sést í þinginu lengi. Er þó ýmsum brögðum beitt þar af hálfu þingmanna popúlistaflokkanna, Viðreisnar og systurflokkanna.“
Ritstjórn Morgunblaðsins er ekki hrifin af því sem Þorgerður talaði um. „Það er ömurlegt að Viðreisn skuli nota deilur um viðkvæmt málefni í Póllandi til að reyna að slá pólitískar keilur hér á landi,“ segir í greininni. „Hvers vegna beinir Viðreisn ekki frekar sjónum að því málefni sem flokkurinn var stofnaður um? Getur verið að formaður flokksins telji að ef hún minnir of rækilega á að flokkurinn er stofnaður og starfar til þess að reyna að þvinga Ísland inn í Evrópusambandið þá fækki mögulegum kjósendum mjög? Getur verið að Viðreisn hafi ákveðið að reyna að sigla inn á þing undir fölsku flaggi á næsta kjörtímabili?“