fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Kolbrún segir að slóðaskapurinn verði Íslendingum dýr

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 12. nóvember 2020 09:51

Kolbrún Bergþórsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirsjáanlegt er að Íslendingar þurfi að greiða milljarða fyrir losunarkvóta þar sem Íslandi hefur ekki tekist að standa við skuldbindingar sínar í Parísarsamkomulaginu um minnkun losunar kolefnis. Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmastjóri Landverndar, sagði um þetta í viðtali við Fréttablaðið í gær:

„Þessi niðurstaða er í boði fyrri ríkisstjórna sem hafa ekki sinnt loftslagsmálunum neitt. Þegar skrifað var undir Kýótó-bókunina þá lögðu Íslendingar sig fram um að fá undanþágur þannig að í staðinn fyrir að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda eins og aðrir þurftu að gera, þá vildi Ísland auka sína losun um tíu prósent. Við gátum ekki einu sinni staðið við það.“

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, fer hörðum orðum um frammistöðu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í leiðara blaðsins í dag. Hún segir undarlegt að skrifa undir samning og gera síðan ekkert til að uppfylla hann. Slóðaskapur sé dýr:

„Slóðaskapur getur reynst dýr, eins og sýnir sig nú þegar íslensk stjórnvöld kunna að horfast í augu við milljarða útgjöld fyrir að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna Kýótó-samningsins. Samningurinn fól í sér átak gegn gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hlýnun. Sérákvæði gerði Íslandi síðan mögulegt að auka losun frá stóriðju. Verulega þægileg undanþága. En ekki var hægt að uppfylla samninginn.

Alls óháð því hvort borga þarf milljarða eða ekki þá er fjarska undarlegt að gangast undir samning og standa síðan ekki við skuldbindingar sem honum fylgja. Þeir sem slíkt gera þykja venjulega ekki fínir pappírar og fá á sig slæmt orð. Það er sérlega vont þegar slíkt opinberast í baráttunni gegn loftslagsvánni, sem er langstærsta hættan sem að mannkyni steðjar. Þar er engan veginn í boði að sitja hjá aðgerðalaus.“

Afneitunarsinnar fá líka pillu frá Kolbrúnu:

„Þeir sem þeim hópi tilheyra andvarpa þreytulega í hvert sinn sem loftslagsmálin ber á góma. „Það er heitt og kalt til skiptis, jöklar hafa alltaf verið að bráðna öðru hvoru. Þekkið þið virkilega ekki mannkynssöguna?“ umla þeir geðvonskulega og fara síðan á YouTube og horfa á myndbönd sem aðrir afneitunarsinnar hafa sett saman og eiga að sýna fjölmörg dæmi um að færustu vísindamenn hafi oftar en ekki rangt fyrir sér þegar þeir spá fyrir um hamfarir.“

Kolbrún segir að baráttan gegn loftslagsvánni sé í skötulíki. Stjórnmálamenn skrifi undir alþjóðlega samninga sem síðan sé ekki farið eftir, enda er það kostnaðarsamt að draga úr losun. En kostnaðurinn verði miklu meira ef ekki sé gripið til aðgerða:

„Það kostar að bjarga heiminum frá hörmungum. Það kostar líka að aðhafast ekki neitt og sá kostnaður fæst aldrei bættur.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra