fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Hugmyndir um auðlindir í þjóðareigu og þak á skattheimtu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 8. nóvember 2020 18:30

Mynd/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimilt var að leggja 76% toll á franskar kartöflur. Lítil takmörk eru fyrir skattheimtu hér á landi. Feneyjanefndin segir tillögu að stjórnarskrárákvæði um þjóðareign óskýra.

Enn á ný er rætt um nýtt stjórnarskrárákvæði um „auðlindir í þjóðareigu,“ en nú seinast impraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þessu í stefnuræðu sinni. Björn Bjarnason, fyrrvverandi ráðherra, benti á það á heimasíðu sinni í kjölfarið á að Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, hefði reifað slíkar hugmyndir fyrir tæpum 30 árum. Síðan þá hefur reglulega verið rætt um stjórnarskrárákvæði af þessu tagi og það orðið tilefni skrifa fræðimanna jafnt sem leikmanna. Í samtali við Fréttablaðið á dögunum orðaði Katrín forsætisráðherra það svo að í samfélaginu væri „mjög mikill og ríkur vilji“ til að fjallað yrði um auðlindir í stjórnarskrá.

Óskýrt ákvæði

Feneyjanefnd Evrópuráðsins birti hinn 9. október síðastliðinn álit sitt á þeim fjórum frumvörpum til stjórnskipunarlaga sem undanfarið hafa verið til umfjöllunar. Nefndin segir í áliti sínu að skýra verði betur hvað átt sé við með þjóðareign og tengslum við annan eignarrétt. Þá þurfi að tryggja að hægt sé að bera undir dómstóla ágreining um gjaldtöku og nýtingu í ábataskyni.

Helstu fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar hafa margsinnis bent á að ef hugtakið þjóðareign hafi yfir höfuð eitthvert lagalegt inntak, þá merki það ríkiseign. Ríkið eigi þá að njóta eignarréttar á auðlindum og fara með heimildir sem fylgja þeim eignarrétti. Raunar er erfitt að glöggva sig á því hvaða auðlindir átt er við í þessu sambandi. Nú þegar eru auðlindir annaðhvort eign einkaaðila eða ríkisins. Svo virðist sem tillaga um „þjóðareign á auðlindum“ hafi lítið efnislegt innihald. Hún ber þess öll merki að vera málamiðlunartillaga milli afar ólíkra sjónarmiða.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að sú tillaga sem nú liggi fyrir að ákvæði stjórnarskrár um þetta efni sé merkingarlaus og tryggi ekki „þjóðareignina“ eins og hún orðar það, en forsætisráðherra sagði í áðurnefndu viðtali við Fréttablaðið að hún teldi ekki rétt „að fara í upptalningu heldur tala um þetta út frá grundvallaratriðum, það er að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu í þjóðareign. Ég held að ef við ætlum í einhverja upptalningu þá séum við bara að fara að elta skottið á sjálfum okkur.“

Skerpa á eignarrétti

En fyrst verið er að ræða um ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt á annað borð, mætti velta því upp hvort ekki sé ástæða til að skerpa betur á friðhelgi eignarréttar í stjórnarskrá. Sú skerðing eignarréttar sem helst reynir á er skattheimta, en Alþingi hefur svo að segja frjálsar hendur við álagningu skatta en þeir mega þó ekki vera afturvirkir. Til að mynda hafa íslenskir dómstólar ekki skorið úr um það með afgerandi hætti hversu háan skatt megi taka og hvort skattheimta yfir tilteknum mörkum geti orðið svo mikil að maður yrði talinn sviptur eign sinni. Þannig hefur það verið talið standast ákvæði stjórnarskrár að samanlagður skattur á tekjur og eignir sé hærri en tekjufjárhæð nemur.

Margsinnis hefur ágreiningur um takmörk skattlagningarvalds verið borinn undir dómstóla, en afar sjaldan sem dómstólar hér á landi hafa komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á skattgreiðendum í þessu tilliti. Í dómi Hæstaréttar nr. 726/2013 voru atvik máls þau að deilt var um hvort álagning auðlegðarskatts væri andstæð stjórnarskrá. Þar var sem fyrr komist svo að orði að löggjafanum yrði „játað verulegt svigrúm til að ákveða hvernig skattlagningu skuli háttað“ og niðurstaðan sú að skatturinn bryti ekki í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Ekkert þak á skattheimtu

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 666/2016 var komist að þeirri niðurstöðu að 76% tollur á franskar kartöflur stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Tilgangur þess tolls var að vernda innlenda framleiðslu sem þó er að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Fyrir dómstólum héldu lögmenn íslenska ríkisins því fram að gjaldtakan þjónaði ekki því hlutverki að vernda íslenskan landbúnað, heldur væri bara um almenna tekjuöflun ríkissjóðs að ræða. Rökstuðningnum hefði þannig verið breytt eftir á.

Lengi er hægt að deila um það hversu hátt hlutfall þjóðartekna eigi að ganga til ríkis og sveitarfélaga. En eftir því sem það hlutfall verður hærra, verður minna eftir til frjálsrar ráðstöfunar fólks og fyrirtækja. Margvísleg rök má færa fyrir því að stór hluti þeirra skatta sem nú renna til hins opinbera væri betur kominn í höndum borgaranna sjálfra. Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að setja þak á skattheimtu, til dæmis í formi hlutfalls af þjóðartekjum eða þjóðarframleiðslu. Útgjöld ríkis og sveitarfélaga yrðu þá að vera innan tiltekinna marka og þannig háð sveiflum í þjóðarbúskap.

Þá mætti líka velta því upp hvort rétt væri að gera breytingu á stjórnarskrá þannig að að minnsta kosti tveir þriðju hlutar þingmanna þyrftu að samþykkja að leggja á skatt. Hér væri um að ræða ný stjórnarskrárákvæði um eignarrétt sem hefðu raunverulegt inntak og skerptu á almennum mannréttindum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra