fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Sóttvarnir og mannréttindi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 1. nóvember 2020 17:32

Ef til vill væri rétt að áskilja í sóttvarnalögum að heilbrigðisráðherra verði að bera tillögur um sóttvarnir undir Alþingi. MYND/ANTON BRINK

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sóttkví og einangrun sjúkra felur í sér skerðingu mannréttinda og þarf því að beita af varúð. Sjónarmið um að brýnt sé að ráðast í útbætur á sóttvarnarlögum, fá aukin byr.

Hætt er við því að viðbrögð stjórnvalda verði ofsafengin þegar stóráföll dynja yfir sem eiga sér enga hliðstæðu. Svokölluð ættjarðarlög (Patriot Act) í Bandaríkjunum eru af mörgum talin dæmi þar um en þau voru sett í kjölfar árásar hermdarverkamanna á tvíburaturnana í New York-borg 11. september 2001.

Alan Dershowitz, einn kunnasti lögmaður vestanhafs og kennari við lagadeild Harvardháskóla, hefur nefnt að í kjölfar árásanna hafi stjórnvöld í Washington farið offari í eftirliti með borgurunum og um leið vegið gróflega að persónufrelsi.

Síðustu misseri hefur víðs vegar um heim verið gengið langt í skerðingu margvíslegra mannréttinda í nafni sóttvarna. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þær ráðstafanir en það sjónarmið á miklu fylgi að fagna að borgurunum beri að „hlýða“ sóttvarnayfirvöldum skilyrðislaust

Eiga mannréttindi ekki við í farsótt?

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur sagði í grein sinni í Morgunblaðinu 10. október síðastliðinn að „akademískar hugleiðingar um frelsi“ væru „best geymdar þar til þessi plága er gengin yfir“. Hann bætti því við að „spekúlöntum og sumum stjórnmálamönnum“ þætti þetta „heppilegur tími, nú þegar faraldurinn geisar og sjúkrahús eru byrjuð að fyllast, að viðra kenningar sínar um frelsi einstaklingsins sem þeir lásu kannski um þegar þeir voru ungir og móttækilegir en eiga lítið erindi í því stríði sem nú er háð“. Þá lagði hann til að orð svokallaðs „þríeykis“ yrðu „guðspjöll dagsins“.

Þvert á það sem Ólafur Jóhann nefndi í grein sinni þá má færa fyrir því ítarleg rök að einmitt nú þegar hætta steðjar að sé mikilvægt sem aldrei fyrr að ræða mannréttindi og spyrja gagnrýnna spurninga – í stað þess að gera embættismenn að „guðspjallamönnum“.

Sóttvarnalæknir kominn út fyrir umboð sitt?

Páll Hreinsson, fyrrverandi prófessor og forseti EFTAdómstólsins, skilaði forsætisráðherra nýverið álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til sóttvarnaráðstafana. Páll telur í niðurstöðu sinni að endurskoða þurfi sóttvarnalög og raunar verði strax að bæta úr ágöllum á lögunum. Sóttkví og einangrun sjúkra feli í sér frelsisskerðingu sem falli undir 67. gr. stjórnarskrár og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því ljósi verði að breyta ákvæðum sóttvarnalaga þannig að mál er varða lögmæti sóttkvíar og einangrunar megi bera undir dómstóla.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði forsætisráðherra á dögunum um lagagrundvöll sóttvarnalæknis þegar kæmi að tilmælum sem hann sendi tilteknum aðilum án aðkomu heilbrigðisráðherra. Sigríður hafði þá í huga tilmæli sem Íþróttasambandi Íslands bárust og leiddu til þess að íþróttastarf hefur legið niðri síðustu vikur. Forsætisráðherra vék sér undan því að svara spurningu Sigríðar sem spurði í færslu á fésbókarsíðu sinni í kjölfarið: „Er boðlegt að stjórnvald undir ráðherra gefi tilmæli þvert ofan á reglu sem ráðherrann hefur nýverið sett eftir að hafa rannsakað málið og vegið heildstætt eins og ráðherra ber skylda til? Er ekki hætta á svokallaðri upplýsingaóreiðu við svona ástand?“

Sóttvarnayfirvöldum er væntanlega heimilt að veita tilmæli almenns eðlis, til dæmis að menn þvoi hendur sínar og svo framvegis, en bein tilmæli til tiltekinna samtaka eins og ÍSÍ eru ekkert annað en fyrirmæli – fyrirmæli þess eðlis að menn sjá sér ekki annað fært en að hlíta þeim og þá rétt að spyrja hvort sóttvarnalæknir sé kominn út fyrir umboð sitt.

Er verið að veikja lýðræðislegar stofnanir?

Bjarni Már Magnússon lagaprófessor hefur velt því upp hvort nú um stundir sé mögulega að verða þróun frá lýðræðislegum stjórnarháttum. Hann skrifar á fésbókarsíðu sína: „Er tilhneigingin að færa sérfræðingum (de facto) ákvörðunarvald um mjög íþyngjandi aðgerðir, með lítilli eða jafnvel engri aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðþingsins? Er slík tilhneiging ekki til þess fallin að veikja lýðræðisstofnanir og -menningu ríkja og ýta undir rugling og óvissu meðal borgaranna, sem átta sig síður á hvort hátternisreglur feli í sér tilmæli eða valdboð? Hversu lengi getur slíkt fyrirkomulag staðið yfir?“

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari benti á það í grein í Morgunblaðinu 13. ágúst síðastliðinn að lýðræði og landsstjórn mætti ekki framselja sérfræðingum í hendur. Slík fámennisstjórn byði alls konar hættu heim. Almennir borgarar hefðu rétt og skyldu til að horfa á tölfræðilegar upplýsingar og draga sjálfstæðar ályktanir í stað þess að samþykkja umyrðalaust að vísindamönnum og ráðherra yrðu falin öll völd.

Völdin færð til Alþingis

Ætla má að höfundar frumvarps til núverandi sóttvarnalaga hafi ekki séð fyrir sér heimsfaraldur pestar sem vara myndi mánuðum saman en í ljósi þessa má velta því upp út frá lýðræðissjónarmiðum hvort heilbrigðisráðherra sé ekki falin of mikil völd til að mæla fyrir um ráðstafanir vegna sóttvarna.

Þær aðgerðir sem hér um ræðir eru einfaldlega svo viðurhlutamiklar að þær þyrfti að ræða á breiðari grundvelli og ef til vill væri rétt að áskilja í sóttvarnalögum að heilbrigðisráðherra verði að bera tillögur um sóttvarnir undir Alþingi.

Á okkar tímum er hægt að kalla Alþingi saman með örskömmum fyrirvara árið um kring og í reynd er erfitt að sjá hvaða rök mæli gegn því að ákvörðunarvald í þessum efnum færðist frá heilbrigðisráðherra til Alþingis.

En vera kann þó að lýðræðisleg sjónarmið njóti í reynd minna fylgis en ætla mætti við fyrstu sýn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra